137. löggjafarþing — 9. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[18:58]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra. Þingheimur. Ég verð að lýsa óánægju minni með þau einkennilegu vinnubrögð sem viðgangast á þinginu. Ég skal setja þau ummæli aftast í ræðu mína úr því að hæstv. fjármálaráðherra þarf að fara í beina útsendingu en ég vil taka undir orð kollega míns, hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. Hann var kominn með tölu á hækkanirnar sem lenda á heimilunum sem ég var ekki með. Ég sá það hér að það var hálft prósent sem þetta mundi hækka vísitölu neysluverðs.

Á meðan vísitala neysluverðs er til grundvallar nánast öllum lánum sem til eru í hagkerfinu þá eru svona vinnubrögð við fjárlög algerlega óásættanleg. Með því að hækka skuldir heimilanna í landinu, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði áðan, um 8 milljarða kr., til að ná inn 2,5 milljörðum í tekjur fyrir ríkissjóð, er verið að reka hníf í bakið á fólki hér á landi. Það er ömurlegt að verða vitni að þessu. Þetta eru ömurlegar aðferðir. Það sem heimilin þurfa á að halda er að vísitala neysluverðs verði aftengd af lánum til að fólk geti náð að koma fjárhag sínum á réttan kjöl og tapi ekki öllu því sem það á. Hér er verið að fara í þveröfuga átt.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmenn Vinstri grænna hvort þetta hafi verið eitt af kosningaloforðunum, að fara svona með heimilin í landinu. Það er kallað til sumarþings vegna vandans í efnahagsmálum og hér er verið að ræða ferkantaðar marglyttur og rusl, eins og ég kalla það. Svo kom Evrópusambandsmálið að vísu inn í morgun sem er mál málanna á þessu þingi og verður mál málanna næstu ár. Það er ekki verið að ræða að neinu marki vanda heimilanna, það er ekki verið að ræða að neinu marki vanda efnahagslífsins. Inn í miðja umræðuna um Evrópusambandið, sem er merkilegasta og mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar, er komið með þennan rýting í bakið á heimilunum.

Frú forseti. Ég veit ekki hvort þetta teljast eðlileg vinnubrögð á Alþingi en fyrir venjulegt fólk sem kemur inn af götunni og er nýbyrjað í vinnunni sinni — þetta mundi hvergi viðgangast þar sem heilindi væru höfð til hliðsjónar í vinnu af þessu tagi. Ég átta mig ekki á hvers vegna verið er að afgreiða þetta mál í dag og í kvöld. Farið var með þetta sem mannsmorð á einhverjum fundum í dag. Það mátti ekki upplýsa um hvað væri í gangi. Það er annað mál í gangi sem farið hefur verið með sem mannsmorð líka, það lýtur að breytingum á lögum vegna Kaupthings Edge sem var tekið inn í þingið á þeim forsendum að greiða þyrfti laun til starfsmanna SPRON á Íslandi.

Ég er búinn að vera með óbragð í munninum í allan dag út af þessum vinnubrögðum. Ég átta mig vel á því að Alþingi nýtur trausts 13% þjóðarinnar. Ég er ekkert hissa á því. Svona á ekki að vinna á Alþingi. Það var fundur í morgun, sameiginlegur fundur efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar, sem átti að vera trúnaðarmál. Það er verið að afgreiða mál á Alþingi Íslendinga sem trúnaðarmál. Auðvitað á að vera bannað að vera með mál á Alþingi Íslendinga sem eru trúnaðarmál nema í þeim algeru undantekningartilvikum sem varða öryggi ríkisins. Hvers konar Alþingi er það sem pukrast svona með löggjöf sína fyrir öðrum þingmönnum og fyrir almenningi í landinu? Hvers konar virðing er það fyrir lýðræðinu að fara svona með málin?

Einn nefndarmanna á fundinum í morgun stóð upp og labbaði út af fundinum vegna þess að hann gaf sig ekki undir þetta pukur með þingmál. Ég óska honum til hamingju með það. Það væri óskandi að fleiri þingmenn hefðu kjark til að mótmæla svona vinnubrögðum. Ég mundi gera það ef ég stæði í þeim sporum.

Frú forseti. Þetta eru ekki góð vinnubrögð fyrir utan það sem allir vita sem nenna að horfa á málið af einhverju viti, að fjárlagagati íslenska ríkisins verður ekki hægt að loka. Það er ekki hægt að loka því með skattahækkunum, það er ekki hægt að loka því með niðurskurði og það er ekki hægt að loka því með því að nota hvort tveggja. Skuldir íslenska ríkisins eru einfaldlega orðnar það miklar að þær eru ekki viðráðanlegar. Ég starfa sjálfur enn þá að vísu sem sérfræðingur í skuldastýringu ríkissjóða fyrir OECD. Ég tala við sérfræðinga í skuldastýringu ríkissjóða í hverri viku. Þegar ég segi þeim hvað er í gangi á Íslandi þá segja þeir mér að Íslendingar séu brjálaðir að ætla að reyna þetta. Þeir segja að skuldastaða Íslands sé slík að það sé einfaldlega sjálfsagt mál að óska eftir niðurfellingu skulda í miklum mæli. Það mundi engin nágrannaþjóða kippa sér upp við það ef beðið væri um það. Það hefur aldrei verið minnst á það í þessum þingsal.

Það er kominn tími til að aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði afþökkuð. Það er kominn tími til að hætt verði að knésetja heimilin og almenning í landinu. Það er kominn tími til að Alþingi taki hausinn undan teppinu og ríkisstjórnin taki hausinn undan teppinu og fari að líta betur í kringum sig eftir öðrum lausnum. Við erum á algerlega vonlausri vegferð, því miður.

Nú erum við að fara að borga meira af húsnæðislánunum okkar í næsta mánuði af því að verð á sígarettupakka hækkar. Verðbólgan eykst þegar allir eru að bíða eftir vaxtalækkun vegna þess að verðbólgan á að vera á niðurleið. Vextir munu ekki lækka. Hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir og það er slæmt fyrir þjóðina að þurfa að búa við hagstjórn sem er svona. Eins og ég segi, ég greiddi atkvæði gegn þessum afbrigðum áðan vegna þess að mér finnst að ekki eigi að fara með mál í gegnum þingið með þeim hætti sem verið er að gera hér. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu máli. Ég mun fagna því á eftir, þegar það kemur fyrir efnahags- og skattanefnd, að fá upplýsingar frá formanni nefndarinnar um það hvað þetta mun nákvæmlega kosta fyrir heimilin. Ég mun fagna því að fá að færa það til bókar með hvaða hætti stjórnvöld eru hér að reka hníf í bakið á heimilunum. Það er vont að verða vitni að þessu og ég hafna þessum vinnubrögðum.

Það er ekki langt síðan ég stóð hérna fyrir utan og kallaði: Vanhæf ríkisstjórn, í takt við þúsundir annarra. Ég held að ég verði því miður að halda áfram að endurtaka það, frú forseti. Vanhæf ríkisstjórn.