137. löggjafarþing — 11. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[23:19]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá minni hluta efnahags- og skattanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fleira, lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um frumvarpið á milli 2. og 3. umræðu og fékk á sinn fund Þorstein Þorgeirsson frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Minni hlutinn telur að af athugasemdum við frumvarpið verði ekki ráðið hver áhrif umræddar gjaldahækkanir muni hafa á útgjöld hins opinbera, svo sem vegna persónuafsláttar og annarra skuldbindinga sem bundnar eru vísitölu neysluverðs.

Þrátt fyrir ummæli hv. þm. Helga Hjörvars get ég ekki tekið undir að það hafi komið skýrt fram í svörum fulltrúans frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins hvort búið væri að taka tillit til þessara áhrifa í frumvarpinu og þeim athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu. Það var ekki hægt að greina það af töflunni sem fylgir með í athugasemdunum. Ég efast ekki um að þetta sé verklag hjá fjármálaráðuneytinu en það kemur engan veginn fram í athugasemdum við frumvarpið hvort það hafi verið tekið inn í útreikningunum.

Þá er ljóst að frumvarpið mun hafa veruleg neikvæð áhrif á verðtryggð lán heimila og fyrirtækja og það hefur enginn sem hér hefur stigið í ræðustól efast um að við erum að leggja miklar auknar byrðar á íslensk heimili og fyrirtæki með þessu frumvarpi.

Minni hlutinn gagnrýnir einnig verklag við framsetningu frumvarpsins. Hann mælist eindregið til þess að úr því verði bætt svo að kjörnir fulltrúar geti tekið upplýstar ákvarðanir um svo mikilvægt mál.

Minni hlutinn leggst því gegn samþykkt frumvarpsins.

Undir nefndarálitið skrifa sú sem hér stendur, Tryggvi Þór Herbertsson, Pétur H. Blöndal og Þór Saari.