137. löggjafarþing — 11. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[23:21]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig engan veginn á því hvers konar ferli ég mundi setja af stað með minni fyrstu athugasemd hér í kvöld en þetta hefur verið ánægjulegur skóli að horfa upp á vinnubrögðin á Alþingi og hvernig þau gerast.

Það er rétt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sagði að það er alls ekki hægt að ráða af tölunum í þessu frumvarpi að þar sé um nettóáhrif að ræða. Meiri hluti nefndarmanna viðurkenndi það þegar ég spurði þau að því og þau voru að lesa töfluna að það væri nánast greinilegt að það væri ekki um nettóáhrif að ræða í tölunum þar.

Við skulum samt ekki gleyma því að þetta byrjaði á því að þetta frumvarp mun hækka skuldir heimilanna um 8 þús. millj. kr. og heimilin mega ekki við því. Þetta þýðir að verðbólgan mun aukast og þetta þýðir jafnframt að það verður frekari töf á vaxtalækkunum sem mikil þörf er á.

Hvað varðar nettóáhrifin fyrir ríkissjóð eru þau mjög óljós en það er alla vega vitað að persónuafsláttur mun sennilega hækka um rúmlega 400 millj. kr. Verðtryggt lán ríkissjóðs til Seðlabankans mun hækka um 1,5 milljarða. Millifærslur í kerfinu munu hækka sennilega um 500 millj. kr. Heildartekjur af þessum sköttum eru reiknaðir um 2,6 milljarðar á þessu ári. Þetta er því ekki sú búbót sem fjármálaráðherra væntir og aðferðin við að vinna þetta mál er með ólíkindum að auki.

Þetta sýnir okkur öllum og þá ekki síst okkur sem erum ný á þingi að við megum ekki taka við og kokgleypa vinnubrögð sem hafa viðgengist hér að mér virðist árum og jafnvel áratugum saman. Ég hafði orð á því fyrr í kvöld að ég hefði verið með óbragð í munninum í dag út af vinnubrögðum á Alþingi vegna ýmissa trúnaðaratriða og ýmiss þess háttar. Mér finnst rétt að forseti taki það til athugunar að það væri einfaldlega bannað það verklag á Alþingi að fundir séu bundnir trúnaði nema það varði beinlínis öryggi ríkisins. Þetta er óhæfa að Alþingi geti ekki fjallað um mál öðruvísi en að menn séu bundnir trúnaði um það.

Þetta sýnir okkur líka hve nauðsynlegt er að afnema þessa verðtryggingu því að það er sama hvað gjört er, það hefur áhrif langt úr fyrir ætluð frumvörp og eins og í þessu tilviki hefur það örugglega ekki verið ætlun fjármálaráðherra að velta 8 þús. millj. í viðbót yfir á heimilin til að borga. Ég ætla honum það ekki.

En þetta er vond afleiðing af vondri lagasetningu og við skulum bara reyna að muna hvernig hlutirnir geta gerst hér ef fólk vandar sig ekki í vinnunni.