137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

frumvarp um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki.

[10:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að hinn ágæti ráðgjafi bæði fyrrverandi ríkisstjórnar og núverandi í þessum bankamálum, Mats Josefsson, hefur sterkar skoðanir á þessu máli eins og fleiru. Honum var sent frumvarpið rétt áður en það var sent til framlagningar á þingi. Hann kom sínum athugasemdum að. Það var vissulega skammur tími þá til stefnu því að við lögðum áherslu á að koma málinu fram. En eitt af þeim atriðum sem hann lagði til var að frumvarpinu yrði breytt í þá átt að eignaumsýslufélagið gæti eftir atvikum verið ekki síður ráðgefandi aðili og veitt bönkunum stuðning og faglega aðstoð við endurskipulagningu fyrirtækja frekar en taka þau yfir og 1. gr. frumvarpsins var nákvæmlega breytt í þessa átt þannig að nú er málið opnara en það var þegar það kom fyrir þing í vetur.

Mér er sömuleiðis kunnugt um að hann hefur komið á fund nefndarinnar og lýst þar sínum sjónarmiðum. Formaður og varaformaður nefndarinnar hafa rætt þau við mig og að sjálfsögðu er það í höndum þingnefndarinnar að vinna úr þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið, þessum eins og öðrum og ég mun fyrst og fremst fagna því ef nefndin nær góðri samstöðu um að afgreiða málið. Okkar áherslur hafa verið þær, og liggja skýrt fyrir, að þeim mun fleiri mál sem bankarnir á eigin vegum geta leyst þeim mun betra og æskilegast væri auðvitað að þetta tæki væri til staðar ef á þyrfti að halda en þyrfti sem minnst og jafnvel þess vegna aldrei að taka nein verkefni til sín ef þau leystust farsællega með öðrum hætti. Það er með öðrum orðum alls ekki ætlunin að sækjast eftir því að verkefni, hvort heldur þau eru í formi ráðgjafar eða aðstoðar við endurskipulagningu fyrirtækja eða beina yfirtöku fyrirtækja, færist þangað heldur að þetta tæki sé til staðar ef á þurfi að halda.