137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

kjarasamningar og ESB-aðild.

[10:40]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Að því er varðar afstöðu aðila vinnumarkaðarins til Evrópumála verða þeir auðvitað að svara fyrir sig. Það er ekki mitt að svara fyrir þá. Það sem ég var að lýsa hér í gær var það viðhorf mitt og skilningur minn á því hvað þeir hafa látið frá sér fara á undanförnum mánuðum, að það stefnuleysi sem ríkti nú í efnahagsmálum og það stefnuleysi sem ríkti hvað varðaði aðild okkar að Evrópusambandinu torveldaði frið á vinnumarkaði bæði til skemmri og lengri tíma. (Gripið fram í.) Það er þess vegna sem við höfum lagt fram tillögu á Alþingi um aðildarumsókn að Evrópusambandinu til að binda enda á þetta stefnuleysi. En það er hins vegar einlægur ásetningur Sjálfstæðisflokks og nú nýlega Framsóknarflokksins líka að viðhalda þessu stefnuleysi sem mér þykir mjög sérkennilegt. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður virðist hins vegar aðeins misskilja orð mín þannig að það sé á færi aðila vinnumarkaðarins að búa til laun þegar verðmæti eru ekki sköpuð. Það er ekki þannig að samningsaðilar á vinnumarkaði geti samið um laun ef verðmætasköpunin stendur ekki undir þeim. (Gripið fram í.) Það sem ég var að vísa til í gær er sú staðreynd, óumdeilda staðreynd að framleiðni í íslensku atvinnulífi er lakari en í nágrannalöndunum og við erum að bera minna úr býtum fyrir hverja unna vinnustund vegna þess sem þjóð, vegna þess að við búum við mjög lakan gjaldmiðil og kostnaður okkar af honum, vaxtakostnaður atvinnulífsins, vaxtakostnaður heimila dregur niður lífskjör, dregur niður samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á alþjóðamörkuðum. Til þess var ég að vísa. (Gripið fram í.) Aðilar vinnumarkaðarins skipta auðvitað þeirri köku (Gripið fram í.) sem sköpuð er í þjóðarbúinu. En ef ekki eru sköpuð verðmæti þá er náttúrlega eðlilega minna til skiptanna.