137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

kjarasamningar og ESB-aðild.

[10:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að það er ríkisstjórnar á hvers tíma að skapa það svigrúm fyrir atvinnulífið til að það geti þróast, þroskast og eflst þannig að það er raunverulega það sem skiptir máli hér. En núverandi ríkisstjórn hefur gert ansi lítið í því og virðist skella skollaeyrum við því að bæði fyrirtæki og fjölskyldur og heimili séu að brenna upp, svo því sé haldið til haga hér.

Það hefur komið fram í máli verkalýðshreyfingarinnar að þeir séu hættir að tala við embættismenn. Þeir eru komnir að samningaborði ríkisstjórnarinnar. Það er verið að búa hér til stöðugleikasáttmála að mér skilst og ég get ekki túlkað þau orð á annan hátt en að fyrsta atriðið í þeim stöðugleikasáttmála sé það að þvinga ríkisstjórnina og Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu til að hér skapist stöðugleiki. En ég vil líka benda á að stöðugleikinn (Forseti hringir.) næst ekki því að í fyrsta lagi getum við jafnvel gengið inn eftir þrjú eða fjögur ár. Og á þá ekki að semja á meðan eða hvað?