137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

tilraun með erfðabreyttar lífverur.

[10:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Umhverfisstofnun hefur haft til meðferðar umsókn fyrirtækisins ORF Líftækni hf. um leyfi til útiræktunar á erfðabreyttu byggi. En við málsmeðferðina gilda lög um erfðabreyttar lífverur.

ORF er íslenskt hlutafélag sem hefur þróað aðferð við framleiðslu á sérvirkum próteinum fyrir læknarannsóknir, lyf og iðnað. Aðferðin er afrakstur öflugs vísinda- og þróunarstarfs til margra ára en með henni er hægt að lækka verulega framleiðslukostnað þessara próteina og auka gæði þeirra. ORF Líftækni hefur skipað sér í fremstu röð fyrirtækja af þessu tagi í öllum heiminum.

Fyrir liggur jákvæð umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur en þeir aðilar eru lögbundnir umsagnaraðilar varðandi leyfi til útiræktunar erfðabreyttra lífvera.

Fyrr í vikunni mælti hæstv. umhverfisráðherra fyrir frumvarpi til laga um breytingu á nefndum lögum um erfðabreyttar lífverur. Leitað var afbrigða til að koma því máli á dagskrá hérna í þinginu. Í lok málsins tók ráðherrann fram að sér væri bæði ljúft og skylt að upplýsa að Umhverfisstofnun íhugaði að lengja umsóknarferlið til að hægt væri að halda kynningarfund á höfuðborgarsvæðinu um málið. Nú hefur stofnunin staðfest að athugasemdafrestur vegna umsóknarinnar hafi verið framlengdur til 12. júní.

Líkt og alþjóð veit þá dugar skammt að sá byggi um miðjan júní og því ljóst að drátturinn á leyfisferlinu veldur því að verkefnið er í óvissu. Í verkefninu eru fólgin mikil tækifæri til atvinnusköpunar og til þess að skapa gjaldeyristekjur fyrir framtíðina fyrir þessa þjóð sem virkilega þarf á því að halda.

Er þetta atvinnustefna nýju ríkisstjórnarinnar og er þetta rétta leiðin í okkar vegferð til að byggja hér upp efnahagslíf? Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra. Beitti ráðherra sér í málinu í þeim tilgangi að Umhverfisstofnun lengdi þetta ferli? Og er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að þessi aðferð, að nýta þessa tækni til framleiðslu efna til lyfjagerðar, sé ekki við hæfi hér í landinu og er þetta atvinnustefna ríkisstjórnarinnar?