137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

atvinnuleysisbætur.

[10:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram eftirfarandi setning, með leyfi forseta:

„Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu.“

Þessi málaflokkur, börn og fjölskyldur þeirra, fellur undir félagsmálaráðuneytið. Félagsmálaráðuneytið er hið svokallaða velferðarráðuneyti. Að undanförnu hafa þrír ráðherrar Samfylkingarinnar setið í félagsmálaráðuneytinu, hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forseti Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og núverandi ráðherra Árni Páll Árnason.

Það kemur fram þegar maður les upplýsingar um atvinnuleysisbætur og lög um atvinnuleysisbætur, með leyfi forseta, að:

„Sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla og hefur framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára skal eiga rétt á 4% af óskertum grunnatvinnuleysisbótum með hverju barni frá upphafi tímabils skv. 29. gr. nema annað leiði af lögum þessum.“

4% af óskiptum grunnatvinnuleysisbótum eru 276 kr. á dag og mig langar til að spyrja: Hvað fær maður fyrir 276 kr. á dag fimm daga vikunnar? Hefur hæstv. ráðherra kynnt sér hvað hann getur fengið fyrir 276 kr. á dag? Það er hægt að kaupa sér appelsínusafa á 199 kr., Frón heimiliskex er of dýrt, en það kostar 289 kr. og bleyjupakki kostar um 1.000 kr. eða um fjögurra daga greiðslu með einu barni.

Það stendur líka í lögunum að félags- og tryggingamálaráðherra sé heimilt að breyta fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta og reglum sem tengjast atvinnuleysisbótum. Ég mundi gjarnan vilja heyra frá ráðherra hvenær hann telur rétt að lagfæra greiðslur til barna atvinnulausra þannig að það verði raunverulega (Forseti hringir.) hægt að kaupa eitthvað eða að leggja fram framlag til framfærslu barna.