137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

atvinnuleysisbætur.

[10:54]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nú þannig að fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta er á pari nokkurn veginn við lægstu taxtalaun. Því til viðbótar koma auðvitað viðbætur eins og hér eru raktar. Það er hins vegar þannig að önnur úrræði koma til þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum og hafa ekki aðra hluti sér til framfærslu sem auðvitað spila inn í framfærslu barna.

Ég held að við þær aðstæður sem við búum við núna þá sé grundvallaratriðið að verja framlög til atvinnuleysistrygginga. En ég vil minna á það hér að fyrr í þessari viku eða í síðustu viku ræddum við stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs og það liggur fyrir að við þetta mikla atvinnuleysi sem við búum við núna þá verður fé í hann upp urið fyrir árslok og við blasir að obbi bóta sem greiddur verður á næsta ári mun koma úr ríkissjóði. En eins og hv. þingmaður veit er ekki til fé í ríkissjóði fyrir því. Það fé þarf því að taka að láni.

Ég tel fulla ástæðu til að taka þetta atriði til athugunar sem hv. þingmaður bendir á og horfa á heildarmyndina í þessu efni. Ég get ekki svarað því nákvæmlega hér án nokkurra gagna. En ef hv. þingmaður vill leggja fram skriflega fyrirspurn skal ég svara því og reyna þá að koma með frekari talnagögn um það.

En svigrúm til hækkunar atvinnuleysisbóta með einum og öðrum hætti er ekki mikið annars vegar vegna stöðu ríkissjóðs og hins vegar vegna þess að ég er bjargfastlega þeirrar skoðunar að við megum ekki hækka atvinnuleysisbætur umfram það sem launavinna gefur af sér. Það er auðvitað mikilvægt að hækka lægstu laun og þá geta atvinnuleysisbæturnar fylgt. (Forseti hringir.) En að hækka bætur umfram laun er mjög erfitt.