137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

atvinnuleysisbætur.

[10:58]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að af hálfu Samfylkingarinnar var staðið fyrir umfangsmiklum fjárfestingum í almannatryggingakerfinu og atvinnuleysistryggingakerfinu eftir að við tókum sæti í ríkisstjórn árið 2007. Nefni ég bara eina tölu, þ.e. að hagur lakast settu lífeyrisþeganna batnaði um 42% á þessum tíma. (Gripið fram í.) Þar var verið að bæta fyrir vanrækslusyndir Framsóknarflokksins úr stjórnartíð hans.

Ég ætla nú bara að segja alveg eins og er að það er svolítið undarlegt að sitja hér líka undir því að heyra frá þingmanni Framsóknarflokksins ávirðingar um að ekki sé hér bætt í útgjöld til atvinnuleysistrygginga þegar flokkurinn stóð hér gegn tekjuöflun í gær. (Gripið fram í: Nei ...) Það verður nú þannig að tekjuöflun hlýtur alltaf að vera forsenda þess að við getum gert betur í þessu kerfi. Fyrir liggur einlægur vilji okkar til að tryggja eins sanngjörn framlög til atvinnuleysisbóta og mögulegt er. En það takmarkast af getu ríkisins annars vegar og hins vegar af því innbyrðis samræmi sem hlýtur alltaf að vera (Forseti hringir.) á milli bótagreiðslna annars vegar og vinnulauna hins vegar.