137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

fyrirtæki í opinberri eigu.

[10:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þeir geta verið ansi fróðlegir þessir fyrirspurnatímar og þó svo ráðherra svari ekki þeim fyrirspurnum alltaf sem til þeirra er beint þá erum við alla vega búin að fá röksemd fyrir því af hverju ríkisstjórnin vill fara í Evrópusambandið. Það kom fram hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að það er til þess að ná friði á vinnumarkaði á Íslandi. Þá liggur það fyrir.

Ég ætla að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um fyrirtæki sem eru í opinberri eigu. Þeim hefur fjölgað nokkuð mikið og meðal annars bönkum og fjármálafyrirtækjum. Þá er ég að spyrjast fyrir um hvaða starfsmannastefna þar sé í gangi. Það hefur verið nokkur umræða um bankastjóra, um að auglýsa stöður þeirra. Það hefur dregist ansi mikið. En það er svo að bankastjórar eru í miklum minni hluta þegar kemur að starfsmönnum banka og fjármálastofnana. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvaða starfsmannastefna sé í gildi hvað varðar ráðningu í störf hjá þessum fyrirtækjum og öðrum þeim sem verið er að taka yfir núna. Er sú stefna viðhöfð að auglýsa stöður? Ef svo er ekki, hvaða aðrar forsendur liggja þá til grundvallar þegar ráðið er í stöður í þessum fyrirtækjum og öðrum þeim sem hið opinbera, ríkið hefur verið að taka yfir á undanförnum mánuðum?