137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

fyrirtæki í opinberri eigu.

[11:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að ástunda skuli fagleg vinnubrögð við mannaráðningar, að sjálfsögðu, og það skuli auglýst í störf. Það á að vera hin almenna regla. Stöður bankastjóranna verða auglýstar um leið og þeir hafa fengið sinn efnahagsreikning og því bráðabirgðaástandi sem þar hefur ríkt linnir sem vonandi verður innan skamms. Ríkið er að móta betur sína eigendastefnu og hún verður væntanlega skýrð og kynnt innan skamms. Hún kann að verða tvískipt, þ.e. annars vegar almenn eigendastefna sem gildir almennt um aðkomu ríkisins að fyrirtækjum og stofnunum og hins vegar sértækari reglur sem snúa að þeim fjármálafyrirtækjum sem eru komin í hendur ríkisins. Að sjálfsögðu er það einlægur ásetningur ríkisstjórnarinnar að fylgt sé vönduðum vinnubrögðum í þessum efnum, að stöður séu auglýstar, ráðningar faglegar og þar fram eftir götunum.