137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Umræðan um aðild að Evrópusambandinu snýst að mínu mati um sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar. Peningastefnan er skammtímavandamál. Við verðum væntanlega að hafa krónuna næstu tvö þrjú árin þar til vöruskiptajöfnuðurinn, sem er stórlega jákvæður, er búinn að borga niður Icesave-krónurnar og aðrar krónur sem eru hræddar og vilja fara úr landi. Þegar það er leyst skulum við huga að því að taka upp aðra mynt ef áhugi er á því þá. Vegna þess að þá verðum við komin með gjaldeyrisvarasjóð. Þá munum við væntanlega allt að því eiga meira en við skuldum. Og það er ágætismarkmið því að þá getum við tekið upp hvaða mynt sem er án þess að spyrja kóng eða prest hreinlega með því að kaupa hana. Við getum bara keypt evrur, sett inn á innlánsreikninga og breytt þannig í evru. Og eigum fyrir henni. Það verður ekkert „run“ á krónuna eða neitt slíkt við það.

Við Íslendingar búum í þeirri undarlega góðu stöðu í þessu slæma ástandi að útflutningurinn malar gull. Það er afleiðing af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins eins í 18 ár, af því að hann var víst einn við stjórnvölinn. Þess vegna er álið svona svakalega sterkt, þess vegna er sjávarútvegurinn svona sterkur og ferðamennskan af því að Sjálfstæðisflokkurinn var einn við stjórn í 18 ár. Það er þessi útflutningur sem núna er að vinna á jöklabréfunum hægt og rólega, mjög hægt reyndar, og hann mun eftir þrjú, fjögur ár vera búinn að vinna þau niður. Þetta er mín peningastefna. Á þeim tímapunkti skulum við hugleiða hvort ástæða sé til að skipta út krónunni og taka upp aðra mynt. Ég viðurkenni að þetta er ansi lítil mynt og alveg sérstaklega þegar við leyfum okkur að vera með tvær myntir, þ.e. verðtryggðu myntina líka því að það er sérmynt. Ég held að við þurfum að vinna að því að afnema þá mynt, þessa verðtryggðu, sem allra fyrst á þeim samningum sem eru ógerðir, (Forseti hringir.) að sjálfsögðu.