137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:48]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom að þar sem við höfum verið aðilar að EES til margra ára ætti samningaferlið eða viðræðuferlið ekki að þurfa að taka geysilega langan tíma. Við getum vaðið bara beint í þá kafla sem út af standa og einbeitt okkur að þeim. Hitt er allt búið og við erum vön þessari vinnu, við erum vön því að innleiða hér gerðir og kunnum það. Þetta er því miklu auðveldara fyrir okkur en fyrir aðrar Evrópuþjóðir sem eru að koma að þessu í fyrsta skipti.

Það sem verður langflóknast í þessu eru auðvitað sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin. Mér heyrist að allir flokkar leggi ofuráherslu á þá tvo málaflokka. Svo er ýmislegt annað í viðbót sem menn vilja undirstrika en þetta eru stóru málin. Reyndar komu ágætisfréttir um daginn frá Evrópusambandinu, þeir eru að opna á sjávarútvegsstefnu sína og ætla að gefa löndunum miklu meira svigrúm varðandi það hvernig eigi að stýra nýtingu á þeirri náttúruauðlind. Það er því margt að breytast í jákvæða átt í Evrópusambandinu að þessu leyti, að minnsta kosti hefur það verið mín skoðun. Ég spyr: Af hverju ætti Evrópusambandið — ef við tölum bara um sjávarútveginn sem er kannski annar af þessum tveimur höfuðstólpum sem við þurfum að einbeita okkur að — að vilja gína yfir sjávarútvegsauðlind okkar? Er það eitthvað þeim í hag? Er það eitthvað þeim í hag að við förum illa út úr því? Ég sé það ekki.

Ég stórefa að sú grýla sem búið er að teikna svolítið upp í kringum sjávarútveginn standist þegar á hólminn er komið. Ég veit að þetta verður flókið en ég tel, ég ber þá von í brjósti, að við getum náð ásættanlegum samningi um sjávarútveginn af því að ég deili þeirri skoðun sem kom fram og hefur komið fram í ræðum margra að til að örva fjárfestingu (Forseti hringir.) er æskilegt að ganga inn í sambandið og það er talsverð þörf núna á næstunni að fara í það.