137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega málefnalega og yfirvegaða ræðu um þetta mál. Ég held að mjög mikilvægt sé að við ræðum þær tillögur sem hér hafa verið og eru til umfjöllunar á þeim nótum. Ég vil sérstaklega þakka þingmanninum fyrir vinsamleg orð í minn garð og get eiginlega ekki sagt annað en að ég hafi komist eiginlega við við þessi orð hv. þingmanns (Gripið fram í.) — og er það þó, já, svona á góðri stund a.m.k.

Ég tók eftir því í máli þingmannsins að þótt hún sé einn af flutningsmönnum þeirrar tillögu sem stjórnarandstaðan leggur fram heyri ég í máli hennar mikinn vilja til þess að reyna að láta þær tillögur sem liggja fyrir í umræðunni fléttast saman með einhverjum hætti. Ég hef heyrt þennan málflutning líka hjá ýmsum öðrum bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, m.a. hjá hæstv. utanríkisráðherra og hjá varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Ég er því sannfærður um að hægt er með góðum vilja að reyna að flétta þær hugmyndir sem þessar tvær tillögur sýna saman í vinnu utanríkismálanefndar, en að sjálfsögðu verður að vera vilji til þess af beggja hálfu, það gerist auðvitað ekki öðruvísi en að menn séu reiðubúnir til þess að horfa á málsrök hvors annars og reyna að finna sameiginlegan farveg fyrir þau.

Eins og ég gat um í ræðu minni í gær hef ég fullan vilja til þess að reyna að vinna þannig að málum að sem breiðust samstaða náist bæði um vinnubrögð og vinnulag í nefndinni og að sjálfsögðu einnig um hina efnislegu niðurstöðu, að við getum komið með eitthvað sameiginlegt út úr nefndinni sem allir eða flestir geti prýðilega við unað.