137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur flutt hér afstöðu sína og eins og ég sagði í framsögu minni virði ég fullkomlega þá afstöðu. Ég tel að þau rök sem hv. þingmaður flutti séu fullkomlega lögmæt. Ég hef líka sagt það hreinskilnislega að ég er þeim algjörlega andstæður. Ég hef skoðað sögu Evrópusambandsins eins og hann en ég kemst ekki að sömu niðurstöðu. Ég skil vel að hv. þingmaður beri hagsmuni landbúnaðarins fyrir brjósti, það geri ég líka. Ég tel, eins og ég sagði í framsögu minni, að miðað við þá samninga sem fram undan eru á næstu árum og kannski næsta áratug hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni og gjörbreyta munu umhverfi landbúnaðarins, kunni landbúnaði að vera betur borgið í skjóli ESB en utan þess. Ég er líka sannfærður um — það á kannski eftir að koma betur í ljós — að þessar hefðbundnu greinar landbúnaðar eins og sauðfjárrækt og mjólkuriðnaður muni ekki bera skarðan hlut frá borði þó að við gengjum inn í Evrópusambandið.

Hv. þingmaður nefndi hér t.d. reynslu Finna. Hann taldi af og frá, eins og ég skildi hann, að við mundum ná svipuðum samningum. Gott og vel, hann má hafa þá skoðun. Hv. þingmaður vísaði til reynslu Norðmanna varðandi sjávarútvegssamninga. Það skiptir engu máli þó að Dag Seierstad komi hingað mörgum sinnum og hv. þingmaður segi þetta oft og mörgum sinnum, það er grundvallarmunur á afstöðu Norðmanna og okkar. Hann felst í því að Norðmenn hafa sameiginlega lögsögu með Evrópusambandsríkjunum, það höfum við ekki. Það gerir stöðu okkar allt öðruvísi og gerir okkur mun auðveldara fyrir vikið að verja stöðu okkar í samningum.

Hv. þingmaður kann að hafa rétt fyrir sér í öllum atriðum og ég rangt fyrir mér. Það er bara ein leið til þess að skera úr um það, það er að láta á það reyna hvað við komumst langt. Hv. þingmaður er málflutningsmaður, snjall meira að segja. Heldur hv. þingmaður að það mundi duga mjög til þess að vinna mál að koma með slíka afstöðu til dóms (Forseti hringir.) að gefa sér niðurstöðuna fyrir fram án þess að flytja og tefla fram staðreyndum sem kunna að koma í ljós við rannsókn málsins?