137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Atli Gíslason hefur getið sér orð fyrir að hafa unnið mál fyrir dómi sem ýmsir töldu að væru óvinnanleg. Hvernig gerði hann það? Með því að rannsaka þau og leggja fram nýjar staðreyndir sem sannfærðu dómarann. Með öðrum orðum, afstaða manna kann að breytast þegar nýjar staðreyndir koma fram í málinu. Hv. þingmaður hefur í frammi alls konar röksemdir sem eru umdeilanlegar. Af hverju vill hann ekki að gengið verði úr skugga um það með þeim eina hætti sem fáanlegur er, þ.e. menn láti á það reyna? Og þegar niðurstaða liggur fyrir getum við tekið afstöðu til þess.

Ég þekki hv. þingmann að því að hann tekur rökum. Hann hefur sjálfur beitt rökum á mig og sannfært og látið mig skipta um skoðun í mikilvægum málum hér fyrr á árum. Ég vænti þess að hv. þingmaður vilji beita afli sínu vitsmunalega til þess að skoða mál á grundvelli þess sem fyrir liggur, annað finnst mér fráleitt.

Ég spyr líka hv. þingmann: Telur hann að það skapi mjög góða samningsstöðu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um þar sem menn vita ekkert hvað verið er að tala um. Ég þykist vita hver niðurstaðan yrði, yfirgnæfandi meiri hluti. En ég vildi ekki fara í samninga með það á bakinu vegna þess að það mundi veikja samningsstöðu mína og okkar Íslendinga ef Evrópusambandið sæi það þar svart á hvítu: Já, heyrði, þetta lið vill bara stökkva inn í Evrópusambandið. Við þurfum ekki að gera neitt sérstakt fyrir það.

Lýðræðið kemur þegar staðreyndirnar liggja allar fyrir, þá geta menn tekið upplýsta afstöðu. Það er skoðun mín og ég hélt að hv. þingmaður væri raunverulegur lýðræðissinni.

Varðandi svo smitsjúkdómana og innflutning á hráu kjöti yrði það auðvitað aldrei með þeim hætti. Ég spyr líka hv. þingmann: Ætlar hann að setja lög sem banna fuglum himinsins að fljúga á milli landa? Hvernig ætlar hv. þingmaður t.d. að koma í veg fyrir það? Þar geta líka komið sóttkveikjur og hafa komið, eins og við vitum, þannig að þau rök finnast mér veik.

Allt um það, það eina sem ég mælist til (Forseti hringir.) af hv. þingmanni er að hann leyfi fólkinu að taka upplýsta afstöðu.