137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka öllum þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í málefnalegum viðræðum við okkur sem höfum flutt þessa tillögu. Ég tel að þessi umræða hafi fleytt málinu verulega fram. Mér finnst að í máli hv. þingmanna komi það glöggt fram að það er góður samkomulagsflötur milli annars vegar okkar sem flytjum tillöguna og hins vegar þeirra sem utan ríkisstjórnar standa núna.

Ég hef í máli mínu reynt að svara þeim spurningum sem fram hafa komið frá hv. þingmönnum. Mig hefur stundum undrað að hv. þingmenn hafa í sjálfu sér ekki komið með mjög flóknar tæknilegar spurningar, umræðan hefur að verulegu leyti snúist um með hvaða hætti eigi að fara til þessara viðræðna og með hvaða hætti Íslendingar eigi að búa sig undir þær. Þegar ég les þær tvær tillögur sem hér liggja fyrir, annars vegar þá sem ég hef sjálfur mælt fyrir og hins vegar þá tillögu sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur mælt fyrir fyrir hönd Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, finnst mér vera bitamunur en ekki fjár á þeim. Þegar ég les þá tillögu sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er 1. flutningsmaður fyrir kemst ég ekki að annarri niðurstöðu en þeirri að flutningsmenn virðast vera þeirrar skoðunar að hægt sé að ná víðtækri sátt um að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja síðan málið til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem talaði fyrr í dag gerði ítarlega grein fyrir því og þetta var skoðun hennar líka. Það kemur sömuleiðis fram í þingsályktunartillögunni sem ég vísaði til og verður rædd hér síðar í dag að menn telja að hægt sé að ganga til þeirra viðræðna svo fremi sem utanríkismálanefnd hafi áður tryggt það með hvaða hætti meginhagsmunir Íslendinga hljóti brautargengi í viðræðunum og það er talað um í tillögunni að þar eigi að fela utanríkismálanefnd að fjalla faglega um þessa meginhagsmuni. Þeir eru síðan raktir í tillögunni. Það kemur í ljós þegar þeir eru lesnir og bornir saman við það sem við höfum kallað grundvallarviðhorf okkar sem flytjum tillöguna sem ég mælti fyrir að þar er nánast enginn munur. Ég hef sagt það hér líka áður að ég er þeirrar skoðunar að þetta mál sé þannig vaxið að það eigi að reyna að skapa sem víðtækasta sátt um það.

Ég var algjörlega sammála þeim hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem spurðu mig í upphafi umræðunnar hvort ég teldi ekki að það væri sterkara að fara með meginþorra þingmanna að baki slíkum málabúnaði en að vera hugsanlega með nauman meiri hluta á þinginu. Að sjálfsögðu er ég þeirrar skoðunar að samningsstaða Íslendinga verður miklu sterkari eftir því sem stærri hluti Alþingis er að baki. Ég er þeirrar skoðunar að þetta eigi ekki að vera einkamál eins flokks, ekki einkamál ríkisstjórnar heldur eigi að reyna að fá sem flesta geira samfélagsins og sem stærstan hluta Alþingis að málinu. Þess vegna ítreka ég það sem ég hef lýst yfir í mínu máli ítrekað hér að ég vil sem nánast samstarf við stjórnarandstöðuna í þessu máli, ég vil sem nánast samstarf við utanríkismálanefnd. Og það er alveg ljóst að þó að það hljóti auðvitað alltaf að vera framkvæmdarvaldið sem gengur til þessara samninga, verða þeir aldrei viðunandi meðal þjóðarinnar nema fulltrúar hennar séu í mjög nánu samráði bæði um mótun samningsmarkmiða og um hvert það skref sem tekið er.

Þegar menn ganga til samninga við Evrópusambandið er það gert í þrepaskiptum áföngum, þ.e. við höfum 35 kafla sem við þurfum að semja um og það er tekinn einn fyrir í einu. Ég hef leyft mér að slá því föstu að það sé kannski ekki mikil þörf á að semja um obbann af þessum köflum, þ.e. 22 þeirra eru meira og minna kaflar sem eru í þeim málaflokkum sem við höfum verið í nánu samstarfi við Evrópusambandið um í 15 ár og þar sem við höfum meira og minna tekið upp allt það sem Evrópusambandið hefur látið frá sér fara um það efni. Það eru hins vegar önnur efni sem við eigum eftir að fara mjög ítarlega yfir og í öllum þessum efnum þegar köflum yrði lokað yrði bæði haft samráð við þingið, utanríkismálanefnd eða aðra þá hópa sem þingið sjálft telur að það vilji setja saman fyrir sína hönd til þess að hafa samráð við framkvæmdarvaldið.

Við ræddum hér um Evrópunefnd. Ef menn vilja hafa hana er ég svo sannarlega til viðræðu um það og við í ríkisstjórninni. Ef menn vilja hafa utanríkismálanefnd finnst mér það líka hin ágætasta niðurstaða. En ég legg áherslu á það, frú forseti, að samningsvilji minn kemur t.d. fram í því og okkar í ríkisstjórninni að á eftir verður rædd tillagan sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flytur ásamt hópi annarra þingmanna. Hún var tekin á dagskrá með afbrigðum. Ég var sjálfur þeirrar skoðunar, en ég lagðist gegn því þegar tillagan sem ég mælti fyrir var lögð fram í þinginu, þó að ýmsir í mínum hópi vildu að hún yrði tekin fyrr til umræðu með afbrigðum. Ég taldi að svona veigamikið mál ætti ekki að koma á dagskrá með þeim hætti. Ég fellst hins vegar algjörlega á það að tillaga stjórnarandstöðuflokkanna tveggja verði rædd í dag til þess að þessar tvær tillögur geti farið saman til utanríkismálanefndar. Mér finnst sjálfsagt að það verði fjallað um þær saman vegna þess að ég tel að munurinn á þeim sé svo lítill.

Þá skal ég koma að því sem ég tel að sé helsti munurinn og sá sem skiptir mig sem flutningsmann málsins verulegu máli, en það eru tímafrestirnir. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur ef við á annað borð ætlum að ganga til samninga við Evrópusambandið að við gerum það núna í sumar, þ.e. að umsókn okkar verði lögð inn í júlí þegar okkar bestu vinir, þ.e. Svíar, fara með formennsku í Evrópusambandinu. Ég hef sagt það í þessari umræðu að áður en ég lagði fram tillöguna hafði ég samráð og leitaði ráða hjá öllum utanríkisráðherrum okkar helstu vinaþjóða, þ.e. Norðurlandaþjóðanna. Þó að ég ætli ekki að greina frá því í einhverjum smáatriðum hverjar þær ráðleggingar voru þá voru þær nokkuð á eina lund og ég taldi eftir þær viðræður og eftir að hafa metið þetta sjálfur og reyndar líka leitað ráða utan þess hóps sem menn geta kallað ríkisstjórnarflokkana að það væri langfarsælast fyrir okkur Íslendinga að koma málinu fram það fljótt að hægt væri að ná því að þegar Svíar taka við forustu í Evrópusambandinu gætum við afhent þeim þetta og falið þeim að koma umsókninni í gegnum það ferli sem mundi þá, ef allt gengi upp, leiða til þess að Ísland væri samþykkt til umsóknar og til viðræðna sem gætu þá hafist á næsta ári. Þetta tel ég skipta máli. Þetta er ástæðan fyrir því að þessi tímanlega nauður er í þeirri tillögu sem ég mælti fyrir.

Ég tek auðvitað eftir smáatriðum sem er líka að finna en eru mikilvæg í tillögunni sem stjórnarandstöðuflokkarnir tveir hafa flutt. Ég tek eftir því að þó að dagsetningin 31. sé nefnd þá segir að þeim tilteknu verkefnum sem lagt er til þar að utanríkismálanefnd vinni, skuli lokið eigi síðar en 31. Það þýðir að ef menn slá nú í klárana og gætu komist að niðurstöðu, ef sátt yrði um þá leið með einhverjum hætti, þá væri hægt að ljúka því fyrr. Ég segi það bara hreinskilnislega þegar ég skoða þau tvö verkefni sem hv. þm. Sigmundur Davíð og þeir félagar sem flytja þetta mál setja utanríkismálanefnd, þá þekki ég málið það vel að ég tel að það taki ekki mikinn tíma að vinna það .

Að því er vegvísinn varðar er verkefnið skilgreint, það vill svo heppilega til að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur skilgreint verkefnið. Það er finna á bls. 2 í sex liðum. (Gripið fram í: Þér líst vel á tillöguna?) Mér líst vel á margt í tillögunni. Ég tel að ef ég og hv. þm. Sigmundur Davíð mundum fá okkur kaffibolla, (Gripið fram í: Gunnlaugsson.) Gunnlaugsson, ég nauðaþekki föður hv. þingmanns og raunar alla hans kynkvísl, a.m.k. á annan veginn. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að hafa ekki feðrað hann, það var ekki með vilja gert og ekki af ókunnáttu. Ef við mundum setjast niður yfir kaffibolla og fara yfir þetta mundum við á augabragði sennilega geta tekið ákvarðanir um ýmsa þá valkosti sem eru til staðar varðandi sum af þessum verkefnum, ekki öll.

Meginniðurstaða mín varðandi vegvísinn, sem er gamalkunnugt hugtak í þessum efnum, er að það tæki ekki mjög langan tíma að komast að niðurstöðu um það. Það var síðara verkefnið. Fyrra verkefnið, að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum, ég tel nú ekki heldur að þroskaðir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar þyrftu mikinn tíma til þess. Hvers vegna? Vegna þess að það hefur gerst á þessum vetri að allir stjórnmálaflokkarnir hafa lokið ítarlegri úttekt á þessum málum. Sumir, eins og Framsóknarflokkurinn, í lok margra ára vinnu. Það verður því hvorki viðurhlutamikið né erfitt verk, ef menn kjósa að fara þá leið. Þess vegna tel ég að hv. utanríkismálanefnd eigi að skoða báðar þessar tillögur, vinna þær saman, kalla til sín fólk og athuga hvort ekki sé hægt að búa til úr þessu vandaðan smíðisgrip sem allir geta stutt að lokum.