137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[13:58]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að það er mikið að gera hjá hæstv. iðnaðarráðherra og þar af leiðandi hefur hún líklega ekki gefið sér tíma til að lesa þá tillögu sem hér er til umræðu því að í tillögunni eða greinargerð með henni er sérstaklega fjallað um Evrópunefndina sem hæstv. ráðherra talaði um, nefnd sem skilaði af sér í apríl 2009. Við skulum hafa það í huga að þessi nefnd var ekki sammála, ég held að það hafi verið fimm sérálit, en menn voru þó sammála um eitt, að málinu væri ekki lokið, það þyrfti að vinna meira í þessu, það þyrfti meira samráð. Í áliti nefndarinnar segir m.a., áliti allra nefndarmanna vel að merkja:

„Samhljómur er […] meðal nefndarmanna um að nauðsynlegt sé að halda áfram umræðum um kosti og galla Evrópusambandsaðildar fyrir íslenskt samfélag á opinn og lýðræðislegan hátt.“

Svo segir:

„Nefndin telur […] að næsta ríkisstjórn ætti að leitast við að tryggja áframhaldandi umræðu um efni og málsmeðferð tengdum aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Við erum í rauninni ekki að gera annað en að halda áfram þeirri vinnu sem sú nefnd sem iðnaðarráðherra vitnaði hér í var ekki búin að klára.