137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar tillaga frá þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um undirbúning mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Áður en ég held lengra með ræðu mína fer ég fram á það við forseta að formaður Sjálfstæðisflokksins verði við þessa umræðu. (BjarnB: Ég verð hérna.) Það er með ólíkindum að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli kjósa, um leið og hann hefur haldið sína ræðu, að yfirgefa þingsalinn þegar þessi tillaga er til umfjöllunar. Ég geri alvarlegar athugasemdir við það.

Við höfum í dag og í gær rætt þessi Evrópusambandsmál, annars vegar tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar í gær og svo þá tillögu sem hér er komin til umfjöllunar. Í þessari umræðu sem hefur að mínu mati að mestu leyti verið málefnaleg og yfirveguð hefur komið fram ríkur vilji til að reyna að ná sem breiðastri samstöðu um vinnubrögð, vinnulag og efni þessara tveggja tillagna vegna þess að í grunninn er ekki ýkja mikill munur á því hvert þær stefna, þessar tvær tillögur, þó að aðferðafræðin sé aðeins mismunandi. Þess vegna varð ég aðeins undrandi á framsöguræðum formanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í þessari umræðu vegna þess að þá fannst mér allt í einu kveða aðeins við annan tón en í ræðum annarra þingmanna þessara flokka, bæði í dag og í gær. Nú segir formaður Sjálfstæðisflokksins að það sé krafa hans að þessi tillaga komi sjálfstætt út úr utanríkismálanefnd og að til hennar verði tekin sérstök afstaða án samhengis við hina tillöguna. Hér hafa hins vegar fleiri talað um að það séu möguleikar á því að flétta þetta saman. Mér fannst t.d. varaformaður Sjálfstæðisflokksins vera á þeim nótum í sínu máli og mér fannst t.d. hv. þm. Siv Friðleifsdóttir í morgun tala á þeim nótum að það ætti að leita leiða til að flétta þessar tillögur saman með einhverjum hætti.

Hv. formaður Framsóknarflokksins talar eins og að aldrei hafi annað staðið til en að tillaga stjórnarinnar færi inn í utanríkismálanefnd og kæmi þaðan óbreytt út og óunnin. Það hefur auðvitað aldrei staðið til og það vita allir sem hafa tekið þátt í þingstörfum og nefndarstörfum, og t.d. hv. formaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið formaður utanríkismálanefndar veit mætavel, að þingnefnd sem fær mál til umfjöllunar, þó að það komi frá ríkisstjórn, tekur það til faglegrar og vandaðrar umfjöllunar og getur gert á því ýmsar breytingar, getur til að mynda tekið vinnuferlið sem lýst er í þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og gert það að sínu í vinnu nefndarinnar — það er ekkert sem kemur í veg fyrir það — og komið með tillöguna út úr nefndinni að slíkri vinnu lokinni. (BJJ: Hvað vilt þú?) Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Ég hef verið mjög jákvæður gagnvart því að koma á einhverju vinnulagi sem samstaða getur tekist um milli allra stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi.

Viljinn verður auðvitað að vera gagnkvæmur. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir. Við höfum sagt, talsmenn stjórnarflokkanna, að við séum reiðubúin til þess að taka við sjónarmiðum annarra, m.a. þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, og kanna hvort hægt sé að vinna þær saman með einhverjum hætti. Viljinn verður að vera gagnkvæmur til þess. Ég kalla eftir því og spyr, vegna þess að mér finnst ekki alveg samhljómur í þeim málflutningi sem fulltrúar þessara tveggja flokka hafa verið með í þessari umræðu, sérstaklega núna þegar ég hef heyrt formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins: Er ekki raunverulegur vilji til þess? Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það að utanríkismálanefnd taki þessar tillögur tvær og ræði þær saman, fari í það vinnuferli í umfjöllun sinni um þessi mál sem lýst er m.a. í tillögunni sem stjórnarandstöðuflokkarnir tveir leggja fram og komi með málið þannig út úr nefnd, þannig unnið? Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það? Getur ekki orðið samstaða um að reyna að vinna málið með þeim hætti? Ég spyr vegna þess að eins og ég segi finnst mér ekki alveg hafa verið sá tónn sem þeir slógu hér, félagarnir, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson.

Burt séð frá þessu vil ég segja um þetta mál að ég tel að það sem verið er að fjalla um í báðum þingmálunum sé að undirbúningsvinna eigi sér stað vegna umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Ég geng út frá því að það eigi við um tillögu stjórnarandstöðuflokkanna tveggja að það sé ætlast til að aðildarsamningur, ef til hans kemur, verði borinn undir atkvæði allrar þjóðarinnar. Það segir líka tillaga stjórnarinnar, að þjóðin taki af skarið í þessu efni. Ég tel að það sé fyrst og fremst blæbrigðamunur á því hvernig menn vilja vinna þessi mál, hvaða gögn þeir vilja hafa á borðinu þegar þeir taka afstöðu. Uppleggið með tillögu stjórnarinnar er að sjálfsögðu að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið en í athugasemdum í þeirri þingsályktunartillögu er líka gerð grein fyrir þeim meginhagsmunum sem við teljum að eigi að leggja til grundvallar. Ég get ekki séð að það sé munur á þeim sjónarmiðum varðandi grundvallarhagsmunina í þeirri tillögu og í hinni tillögunni. Það kann vel að vera að það þurfi að leggja meiri gögn á borðið, það þurfi að vinna meira og skrifa meiri texta í kringum þessi sjónarmið, þessa grundvallarhagsmuni, en það er ekki þannig að tillögurnar tali í austur og vestur í þessu efni, alls ekki. Mér finnst að það eigi að sjálfsögðu að vinna málið og ég mun, a.m.k. að svo miklu leyti sem ég fæ einhverju um það ráðið, beita mér fyrir því að þannig vinnubrögð verði viðhöfð í nefndinni og ég óska eftir því að um það geti orðið góð samstaða á milli allra flokka.

Síðan hefur verið nokkuð talað um niðurlag í greinargerð með þingsályktunartillögu stjórnarandstöðuflokkanna þar sem talað er um að þegar, með leyfi forseta, „niðurstaða utanríkismálanefndar liggur fyrir er gert ráð fyrir að Alþingi ákveði næstu skref, þ.e. hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið eða eftir atvikum hvort ákvörðun þar um skuli borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu“.

Það er kannski það sem hefur helst verið ágreiningur um og ég er ekki alveg sannfærður um að allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna sem flytja þetta mál séu í raun fylgjandi þessari svokölluðu tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluleið. Það kann vel að vera en mér hefur ekki alveg fundist það þannig að það getur vel verið að ekki einu sinni þetta atriði þurfi að vera til fyrirstöðu fyrir samstöðu um málið í þinginu að svo miklu leyti sem menn yfirleitt vilja fara í einhverjar viðræður við Evrópusambandið. Auðvitað vitum við að það eru ýmsir sem eru algerlega andvígir því yfir höfuð að það verði gert. Það eru sjónarmið sem við berum að sjálfsögðu virðingu fyrir líka.

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að í umræðum um þessi mál í gær lýsti ég yfir miklum vilja til að reyna að ná góðri samvinnu við alla þingflokka. Jafnvel eftir að þessi tillaga frá stjórnarandstöðuflokkunum kom fram gerði ég það sömuleiðis. Ég vonast til þess að hugur fylgi máli hjá forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna sem hafa líka talað um að það sé nauðsynlegt fyrir íslenska hagsmuni í þessu máli að sem breiðust samstaða verði á bak við okkur Íslendinga og íslensk stjórnvöld ef ákveðið verður að fara í viðræður við Evrópusambandið. Ég er sammála því mati, því breiðari samstaða því sterkari er staða fyrir íslensk stjórnvöld í slíkum viðræðum. Það eru hagsmunir okkar allra að góð samstaða náist um málið og þess vegna vonast ég til þess að þá fylgi hugur máli, líka af hálfu forustumanna stjórnarandstöðuflokkanna sem mér fannst ekki alveg skína í gegn í þeirra máli. Það getur verið að ég sé eitthvað viðkvæmur fyrir þessu og hafi misskilið þá. Þeir leiðrétta það þá ef svo er, en mér fannst eitthvert yfirbragð í þeirra máli gefa til kynna að það væri ekki endilega mikil sannfæring á bak við það af þeirra hálfu. Ég vænti þess að þeir skýri það þá frekar og að sjálfsögðu ríður svo mestu á um það hvaða umfjöllun þetta mál fær í nefnd (Forseti hringir.) og hvaða samstöðu við náum um vinnubrögð og vinnulag á þeim vettvangi.