137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Ég fagna því að viðbótartillögur komu við tillögu hæstv. utanríkisráðherra því mér þótti hún frekar fátækleg. Mér fannst það góð viðbót og þar eð ég á sæti í utanríkismálanefnd ásamt formönnunum úr stjórnarandstöðunni, þá held ég að það sé alveg öruggt að við getum fundið fleti á því að samþætta þetta og tvinna saman.

Mig langaði aðeins að ræða um — þegar við erum búin að vinna vinnuna okkar í utanríkismálanefnd og göngum til kosninga um tillöguna er ætlast til þess að við kjósum eftir eigin samvisku út af því að flokkarnir sem eru í stjórn gátu ekki komið sér saman um hana. Ætlast er til þess að við séum ekki með flokkadrætti heldur kjósum einmitt eftir eigin samvisku.

Þá ætlast ég til þess að þingið, gjörvallt þingið geri það í málefnum þegar maður sér og veit að þingmenn eru ekki endilega sammála í málum eins og gerðist í gær og samt var fólk að kjósa gegn sinni eigin samvisku. Það kaus líka án þess að vita um hvað málið snerist. Hvers konar vinnubrögð eru það eiginlega um svona mikilvægt mál?

Ég vil einnig ítreka að Borgarahreyfingin er ekki að ganga í bandalag við Evrópusambandið heldur erum við, ég vona eins og allir hinir, að athuga hvað er í boði, hvað við getum boðið þeim og hvað þeir geta boðið okkur. En mér finnst persónulega þetta ekki vera góður tími til að fara í þessar viðræður. Mér finnst að verið sé að þvinga okkur áfram á ögurstundu inn í mál sem er svo stórt og er að taka frá okkur svo mikinn tíma og svo mikla orku þegar allt er hér hrunið. Eitt stærsta hrun í heiminum, og við eigum að vera að fókusera á þetta núna. Það er ekkert plan B. Hvað á þetta eiginlega að þýða?

En ég vona varðandi þetta mál, úr því það er komið fram og mun fara fyrir utanríkisnefnd, að við getum unnið einmitt á mjög vandaðan hátt allar þær tillögur sem þar koma inn. Ég legg til að við gefum okkur allan þann tíma sem við þurfum til þess að klára málið.