137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr) (andsvar):

Það er nú nánast eins og verið sé að biðja mann um að verða einhvers konar völva og sjá 60 ár fram í tímann. Ég held að það sé engum fært þó maður geti vissulega reynt að ímynda sér hvernig heimurinn verði þá. Ég verð bara að viðurkenna að ég get það ómögulega. (PHB: Börnin okkar lifa þá.)

Mig langar til þess að biðja hv. þingmann um að svara því bara sjálfur hvernig hann ætlar að hafa þetta. Ég get ekki tekið ákvörðun hvað eigi að gera fyrr en ég hef allar upplýsingar á borðinu. Þetta snýst ekki bara um að við fáum alla okkar skilmála samþykkta heldur hefur maður heyrt ýmislegt eins og t.d. hernaðarbandalag Evrópusambandsins og að börnin okkar mundu hugsanlega verða að gegna herskyldu. Það er ýmislegt sem maður heyrir. Mig langar að fá þetta allt upp á borðið áður en ég tek ákvörðun, ég get því hvorki sagt já eða nei því að upplýsingar eru ekki allar komnar upp á borðið. (PHB: Evrópusambandið er að breytast.) Það mun alltaf breytast. Það gerum við líka.