137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar og óska henni góðs gengis í sínum störfum í utanríkismálanefnd.

Svo aðkallandi vandamál hrópa á okkur í samfélaginu að ég tek undir með hv. þingmanni að vitaskuld ættum við líka að einhenda okkur í þau raunverulegu vandamál sem blasa við heimilunum í landinu og fyrirtækjunum. Við framsóknarmenn höfum m.a. á vettvangi þingsins lagt fram tvö frumvörp, annars vegar um leiðréttingu á skuldum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu og í annan stað lögðum við fram í dag frumvarp þess efnis að verðtryggð lán geti aldrei hækkað um meira en 4% á ári hverju þannig að lánveitandinn taki hluta af samfélagslegri ábyrgð fari verðbólgan úr skorðum.

Ég hef beint fyrirspurn til viðskiptaráðherra er snýr að bílalánum. Þúsundir landsmanna, heiðarlegra Íslendinga, tóku bílalán í góðri trú og horfa upp á að þau hafa margfaldast að umfangi ofan á allan annan vanda sem blasir við heimilunum. Ég tek undir með hv. þingmanni, við eigum að ræða um raunveruleg vandamál heimilanna í landinu og í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefur nú þegar lagt fram mjög róttækar hugmyndir til að koma til móts við erfiða stöðu heimilanna og fyrirtækjanna hljótum við að fara að óska eftir því að ríkisstjórnin fari að gera eitthvað í þeim efnum, annaðhvort taka undir með okkur eða koma fram með sínar lausnir. Mér finnst ansi takmarkað hvað ríkisstjórnin hefur lagt fram. Það verður að segjast eins og er, og sérstaklega eftir gærkvöldið, að ég held að óþolið í samfélaginu aukist núna dag frá degi. Um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg hljótum við að hvetja ríkisstjórnina til að fara að gera eitthvað í málefnum heimilanna og fyrirtækja, það þolir enga bið.