137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:43]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem mér finnst umræðan í dag og í gær að mörgu leyti hafa leitt fram er að ég held að það verði nokkuð auðvelt viðfangs í nefnd utanríkismála að vinna að sameiginlegum vegvísi og málagjörð utan um málið allt saman í heild sinni út frá þessum tveimur tillögum sem hér liggja fyrir og þar með náist ágæt samstaða í þinginu um málsmeðferð alla.

Þingmaðurinn spurði hvort það yrði síðan lagt upp í faglega nefnd, já, það yrði örugglega ferlið út úr nefndarvinnunni, að það færi síðan til faglegrar nefndar sem færi með samningsumboðið með einhverjum hætti eins og utanríkisráðherra gerði grein fyrir í tillögu sinni.