137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ummælum hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar að hann talaði um að málsmeðferðin yrði frá þingi til þjóðar. Ég vil þá inna hann sérstaklega eftir því hvort hann er þeirrar skoðunar að áður en málið fari til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. mögulegur samningur, þurfi málið áður að hafa komið til Alþingis til samþykkis eða synjunar og þaðan til þjóðarinnar, og þá um leið hvort það sé nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni þannig að þjóðaratkvæðagreiðslan verði marktæk.

Ástæðan fyrir að ég spyr að þessu er sú að einn af hornsteinum tillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er sá að við viljum tryggja að öll málsmeðferðin og jafnviðkvæmar og mikilvægar spurningar eins og þær sem ég nefni hér liggi fyrir áður en farið er af stað vegna þess að ef ræða þarf þær í mikilli deilu og miklum hita mun niðurstaða af því máli jafnvel litast af þeim æsingi sem getur orðið í þjóðfélaginu vegna þessara mála.