137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:57]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get svarað því aftur. Ég tel að það eigi að leggja málatilbúnaðinn svona upp. Utanríkismálanefnd velur að sjálfsögðu hvernig hún vísar því til þingsins, hvort hún þurfi að fá það staðfest eitthvað sérstaklega hér eða hvort það komi ein tillaga frá utanríkismálanefnd um málsmeðferð og hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu á þeim forsendum og þeim grunni. Ég treysti nefndinni fullkomlega til þess.

En ég spurði hv. formann að því í ræðu minni fyrr í dag hvort það væri ekki örugglega rétt að tillaga stjórnarandstöðuflokkanna tveggja væri samnefnari á milli flokka með mjög ólík sjónarmið, Sjálfstæðisflokks sem vildi ekki sækja um og Framsóknarflokks sem vildi afdráttarlaust sækja um á tilteknum forsendum. Það var bara þetta sem ég vildi koma inn í umræðuna og biðja hv. formann flokksins að staðfesta við okkur í þessari umræðu. Flokkarnir hafa því náð þarna saman um býsna ólík sjónarmið alveg eins og ríkisstjórnarflokkarnir gerðu með tillögu sinni en báðar tillögurnar eru samhljóða að mjög mörgu leyti og verður auðvelt að fella þær saman.