137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

lög um fjármálafyrirtæki og bréf frá Kaupthing Edge.

[13:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. viðskiptaráðherra. Í síðustu viku afgreiddi Alþingi eins og kunnugt er á methraða frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki. Við í minni hlutanum lögðumst á eitt með meiri hlutanum um að afgreiða frumvarpið hratt og funduðum ítrekað um málið, m.a. tvisvar með hæstv. ráðherra, og bæði þar og líka í umræðum á þinginu var kallað eftir öllum upplýsingum sem máli gæti skipt fyrir afgreiðslu málsins. Útgreiðsla Kaupthing Edge var þar nefnd sem ein ástæða fyrir flýtimeðferð málsins en þó taldi hæstv. viðskiptaráðherra það ekki eiga að skipta sköpum því að lykilatriði væri að þýsk stjórnvöld sæju að verið væri að vinna að málinu í þinginu. Þess vegna kom það mér sem og öðrum nefndarmönnum í viðskiptanefnd mjög á óvart að á föstudaginn, sama dag og lögin voru samþykkt, kom frétt á Stöð 2 þess efnis að þýsk stjórnvöld hefðu hótað Íslendingum í bréfi til skilanefndar Kaupþings að ef lögin væru ekki samþykkt hefði það, svo ég vitni í fréttina, slæmar afleiðingar fyrir Ísland og áhrif á viðræður við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn svo eitthvað sé nefnt.

Þremur dögum síðar tjáði hæstv. ráðherra sig um málið og lét hafa eftir sér að það væri sitt mat að það væri ekkert í bréfinu sem túlka mætti sem hótun í garð Íslendinga. Þarna væru þýsk stjórnvöld að lýsa áhyggjum sínum. Formaður viðskiptanefndar, sem ég verð að hrósa sérstaklega fyrir sinn þátt í þessu máli, hefur kallað eftir því að fá bréfið frá viðskiptaráðuneytinu en viðskiptaráðuneytið vísar því til skilanefndarinnar sem svaraði nefndinni í morgun að hún sæi sér ekki fært að afhenda bréfið nema að undangengnu samþykki við viðkomandi aðila. Mér finnst með ólíkindum að ráðherrann — sem annars staðar, á Austurvelli fyrr í vetur, kallaði eftir opnu og gagnsæju efnahagslífi — treysti ekki hv. viðskiptanefnd fyrir þessum tölvupósti og spyr hvort hann ætli að beita sér fyrir því að nefndin fái þessi gögn eða hann feli sig hreinlega á bak við skilanefnd Kaupþings í þessu máli. Ég vil spyrja hann um þetta því að það er óþolandi að þingmenn þurfi að heyra af þessum meintu (Forseti hringir.) bréfaskriftum í fjölmiðlum. Og er eitthvað annað sem hæstv. ráðherra vill deila með okkur varðandi þessi mál?