137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

lög um fjármálafyrirtæki og bréf frá Kaupthing Edge.

[13:39]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að skýra þetta undarlega mál en vil fyrst halda því til haga að ég kom, eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur bent á, tvisvar á fund viðskiptanefndar í síðustu viku og skýrði þá skilmerkilega frá sjónarmiðum aðila, þar á meðal Þjóðverja, í þessu máli. Það er alveg rétt að Þjóðverjar hafa og höfðu áhyggjur af því að útgreiðsla þessara innstæðna mundi dragast. En ég get hins vegar fullyrt og stend við það og það mun koma í ljós þegar viðkomandi skeyti verður birt, sem verður vonandi sem fyrst og ráðuneytið hefur þegar gripið til ráðstafana til að reyna að flýta því, að Þjóðverjar hafa ekki með neinum hætti haft í hótunum við Íslendinga, hvorki varðandi Evrópusambandið né Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða á annan hátt í þessu máli. Það er hreinlega röng fullyrðing eins og mun koma á daginn þegar þetta skeyti verður birt sem verður vonandi sem fyrst.

Ég vil segja við þá sem hafa verið með þann málflutning að halda því fram, og byggja það að því er virðist ekki á öðru en frétt í einum fjölmiðli, að hið stóra og mikla vinaland okkar Þýskaland stundi þau vinnubrögð í alþjóðasamskiptum að hóta vinaþjóðum sínum með því að láta starfsmann í ráðuneyti skrifa bankastarfsmanni og vera þar með einhver skilaboð sem eru ekki ljósari en svo að þegar ég hef lesið viðkomandi skeyti get ég á engan hátt skilið að þar sé verið að hóta Íslendingum, að þá eru menn að gera Þjóðverjum upp ansi miklar sakir. Það má kannski spyrja, ef Þjóðverjar hafa ekki betri leið til að koma skilaboðum til íslenskra stjórnvalda en að gera það með þessum hætti, hvort menn telji þá að næsta skref Þjóðverja í málinu verði að setja flöskuskeyti í höfnina í Hamborg og vonast til þess að með þeim hætti nái Íslendingar því hvað þeir eru að fara. Þjóðverjar hafa ýmsar leiðir til þess að tala við íslensk stjórnvöld. Ég hef m.a. hitt sendiherra Þýskalands margoft á undanförnum mánuðum og þeir þurfa ekki að grípa til þessa ráðs sem hér er verið að dylgja um.