137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

erindi utanríkisráðherra til Möltu.

[13:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú er það svo að hæstv. utanríkisráðherra ber ekki sín ferðaplön undir mig sérstaklega og ég bara hreinlega hef engar upplýsingar um það af hvaða meginástæðum hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt leið sína til Möltu. Ég hef séð eitthvað fjallað um þetta í fjölmiðlum eins og gengur. Hæstv. ráðherra er að sjálfsögðu frjálst að heimsækja þá sem hann telur sig eiga erindi við og þeim sem taka á móti honum að gera það rétt eins og við fáum okkar gesti og tökum á móti þeim þó að ekki líki öllum vel í sumum tilvikum.

Hæstv. utanríkisráðherra er einfaldlega frjáls ferða sinna og stjórnar sínum ferðaplönum. Ég geri ráð fyrir að hann hafi talið sig eiga erindi á þennan vettvang. Kannski er hann þarna fyrst og fremst í fræðsluskyni til að læra af eyþjóðinni sem þarna býr. Og ef marka má af fjölmiðlafréttum hefur hann rætt eitthvað við þá um reynslu þeirra af því að ganga inn í Evrópusambandið og ég held að enginn geti láð honum það þó að hann vilji spjalla um það. Hæstv. utanríkisráðherra er kunnur áhugamaður um það mál. En hitt er ljóst að hann fer þarna í krafti embættis síns sem utanríkisráðherra og hefur ekki borið það undir ríkisstjórn, enda ekki venjan í sjálfu sér að ráðherrar beri ferðaplön sín undir samráðherra sína í ríkisstjórn. Hæstv. utanríkisráðherra er örugglega vel kunn staða málsins hér á Alþingi þannig að ég treysti því að hann fari með sitt umboð og sitt erindi í samræmi við hina formlegu stöðu málsins eins og hún er, að málið er í höndum Alþingis.