137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

erindi utanríkisráðherra til Möltu.

[13:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Þau voru ágæt svo langt sem þau náðu en auðvitað gat hann ekki upplýst nákvæmlega um hvað hæstv. utanríkisráðherra og Maltverjum hefur farið á milli í þessum viðræðum.

Það er auðvitað áhugavert og athyglisvert að ferðin hefur ekki verið rædd í ríkisstjórn og þess vegna eru það ekki ríkisstjórnarmál sem hæstv. utanríkisráðherra er að ræða þarna eftir því sem mér skilst, og hlýtur það að takmarka mjög hvað hann getur rætt því að þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra sé frjáls ferða sinna og hafi almennt málfrelsi þá er það auðvitað ábyrgðarhlutur hvað menn í hans stöðu (Gripið fram í.) ræða við fulltrúa erlendra ríkja. Það er auðvitað ekki ótakmarkað sem menn geta leyft sér í því sambandi.

Hins vegar kann að vera rétt (Forseti hringir.) sem hæstv. fjármálaráðherra sagði að hæstv. utanríkisráðherra sé bara að afla upplýsinga um það hvernig Maltverjum tókst að tryggja það að þeir halda strandveiðum (Forseti hringir.) eða smábátaveiðum rétt fyrir utan landsteinana án afskipta Evrópusambandsins. Það kann að vera að hann sé að afla sér þeirra upplýsinga (Forseti hringir.) og það er út af fyrir sig ágætt.