137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

þjóðlendur.

[13:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem upp í fyrirspurn er í raun frétt sem ég rakst á á netmiðlunum og varðar þjóðlendur. Það kom mér verulega á óvart að núverandi hæstv. fjármálaráðherra virðist ætla að halda áfram með það ólukkans mál sem hið svokallaða þjóðlendumál hefur verið á þjóðinni og ekki síst á landsbyggðinni og bændum og sveitarfélögum. Það kom mér því mjög á óvart að sjá 28. maí sl. svohljóðandi frétt, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra hefur, fyrir hönd íslenska ríkisins, afhent óbyggðanefnd kröfur sínar um þjóðlendur á vestanverðu Norðurlandi (nyrðri hluta). Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem þar kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta.“

Ég hafði og margir fleiri einhvern veginn túlkað orð a.m.k. sumra frambjóðenda flokks þess sem hæstv. fjármálaráðherra er í forsvari fyrir á þann veg að rétt væri að taka upp önnur og betri vinnubrögð varðandi þessar þjóðlendur. Því kemur það mjög á óvart að núverandi ráðherra ætli sér að halda áfram því sem ég vil kalla a.m.k. að hluta til aðför að eignarrétti bænda, landeigenda og sveitarfélaga.

Ég vil benda á að á vef Alþingis er að finna fjölmargar ræður þar sem hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og fleiri ræða þessi mál og þar virðist koma fram annað sjónarmið en nú er haldið á lofti. Ég vil því spyrja ráðherrann hvort hann hyggist halda áfram af fullri hörku með þjóðlendumálið eins og það leit út þegar hann tók við embætti. Mun hann halda því áfram eða mun hann gera einhverjar breytingar og þá hvaða breytingar á málsmeðferð og öðru?