137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

þjóðlendur.

[13:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Forsaga þessa máls er orðin alllöng. Eins og kunnugt er voru sett á Alþingi lög og síðan fór málið í hendur ríkisstjórnar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna og framkvæmdin hófst í þeirra tíð. Kom nokkuð á óvart hversu víðtæk kröfugerð ríkisins var í fyrstu tilvikum. Menn bundu síðan vonir við að dómavenjur mundu skapast sem gerðu framkvæmdina einfaldari í framhaldinu. Það gekk síðan ekki eftir og þessu hafa fylgt miklar deilur og mikill kostnaður.

Þegar ég kom í ráðuneytið í vetur spurðist ég fljótlega fyrir um stöðu þessa máls og var þá upplýst að nokkurn veginn væri tilbúin kröfulýsing á því svæði sem næst átti að taka fyrir, þ.e. Mið-Norðurlandinu eða á vestanverðum Tröllaskaganum. Sú vinna var frágengin og hafði þegar verið stofnað til hennar með miklum kostnaði. Ég lét bíða með málið og kynnti mér kröfulýsinguna og var sannfærður um að hún væri mun hógværari af hálfu ríkisins en áður hefði verið og tæki mið af þeirri meginniðurstöðu sem smátt og smátt hefði orðið í dómum og úrskurðum á undangengnum svæðum. Framkvæmdin er meira en hálfnuð og vandasamt að snúa við úr þessu. Jafnræðis vegna m.a. verður vandséð annað en að ljúka verði þessari framkvæmd. Vonandi er hægt að gera það á mildilegri hátt en farið var af stað með og lagt var upp með. Ég hvet hv. þingmann m.a. til að skoða nú kröfulýsinguna á þessu svæði. Ég held að hann komist að raun um að þar er hvergi nærri gengið eins langt eins og var af hálfu ríkisins þegar kröfum var lýst á fyrstu svæðunum.