137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

orkufrekur iðnaður.

[13:58]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og deili með honum þeirri skoðun að atvinnuleysi sé eitthvert mesta böl sem við getum horfst í augu við. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól að atvinnuleysi á ekki heima í því velferðarsamfélagi sem núverandi ríkisstjórn ætlar að treysta í sessi. Ég er honum hjartanlega sammála um þetta.

Hann talaði mikið um glötuð tækifæri vegna óvissu og þar er ég honum líka hjartanlega sammála. Við höfum horft upp á glötuð tækifæri á Íslandi vegna þess að þegar við höfum verið að laða að erlenda fjárfestingu til landsins höfum við hingað til horft á hvert einstakt tilvik fyrir sig. Við höfum ekki haft heildræna löggjöf um ívilnanir eða ramma utan um það hvernig og hvað við ætlum að bjóða nýrri fjárfestingu sem hingað vill koma.

Þess vegna lagði ég, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, fram mál í ríkisstjórn í gær sem fjallar einmitt um þetta, þ.e. að hér verði settur á laggirnar starfshópur sem vinni hratt og örugglega í sumar að því að marka heildarlöggjöf um ívilnanir þannig að það sé gagnsæi og heill pakki sem erlendar fjárfestingar geta gengið hér að.

Þarna komum við inn á t.d. Þorlákshöfn. Mér skilst að það verkefni höfum við misst til Kanada sem er einmitt einn af okkar helstu samkeppnisaðilum á þessu sviði vegna þess að Kanadamenn hafa gríðarlega mikið af endurnýjanlegri orku en þeir hins vegar hafa líka mjög öflugt ívilnanakerfi sem tekur á móti nýrri fjárfestingu í Kanada. Við það höfum við verið að keppa þannig að við erum ekki og höfum ekki verið samkeppnishæf hingað til.

Núverandi ríkisstjórn hefur sagt það skýrt í stjórnarsáttmála sínum að það sé vilji hennar að nota ívilnanir til að fá hingað erlenda fjárfestingu í grænum hátækniiðnaði og að því stefnum við. Ég hef sagt það hér líka að það eru fjölmörg verkefni á borðinu hjá okkur. Þau hafa mörg hver verið nefnd í fjölmiðlum eins og (Forseti hringir.) greint hefur verið frá og ég skal fara betur yfir það í seinna svari mínu.