137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

lög um atvinnuleysistryggingar.

[14:05]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það úrræði í lögum sem hv. fyrirspyrjandi gerir að umtalsefni er mjög mikilvægt. Það gagnast mjög vel við núverandi aðstæður. Fyrirtæki þurfa þá ekki að segja fólki upp og þeir sem ella mundu horfa fram á að missa vinnu að öllu leyti haldast áfram á vinnumarkaði og í virku starfi.

Varðandi þetta tiltekna atriði treysti ég mér ekki til þess að svara því hér og nú án þess að horfa betur á þau lagaákvæði sem um ræðir. Það þarf satt að segja nokkra textaskýringu til að svara til hlítar þessari fyrirspurn. En hér er hreyft mjög athyglisverðu álitamáli og mjög mikilvægt að þarna sé enginn vafi á, því að það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það getur haft áhrif á réttarstöðu starfsmanns hvernig vinnuréttarsambandinu er í reynd lagalega háttað þó svo að um vinnuskyldu sé alveg augljóslega ekki að ræða á þeim tíma sem greiddar eru bætur fyrir.