137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

útflutningsskylda dilkakjöts.

8. mál
[14:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Á sínum tíma þegar unnið var að gerð sauðfjársamningsins var mjög tekist á um það hvort framlengja ætti svokallaða útflutningsskyldu á dilkakjöti. Niðurstaðan varð sú að ákveðið var að hætta útflutningsskyldu á árinu 2009 og nú er það merka ár runnið upp, en jafnframt var reynt að koma til móts við hagsmuni bænda með því að bæta inn í sauðfjársamninginn sérstakri greiðslu, 300 millj. kr. viðbótargreiðslu sem kemur til framkvæmda á þessu ári.

Það er ekki nein launung á því að þetta var kannski einn helsti ásteytingarsteinninn í þessu máli þegar þessir samningar voru í burðarliðnum og eins í þeirri umræðu sem fór fram meðal bænda þegar samningurinn var borinn undir atkvæði á sínum tíma. Niðurstaðan varð samt sem áður sú sem bændur og ríkisvaldið skrifuðu upp á, að fella niður útflutningsskylduna frá og með árinu 2009 og bæta síðan inn í samninginn upphæð eins og ég gerði grein fyrir.

Nú hafa aðstæður hins vegar á margan hátt breyst. Við vitum að erfiðleikarnir sem dunið hafa yfir þjóðfélagið hafa haft m.a. þær afleiðingar að ríkisstjórnin hefur gert nýjan samning við bændur þar sem gert er ráð fyrir því að bændur taki á sig skerðingu á vísitölubindingu búvörusamninganna eins og við ræddum hér í síðustu viku. Við vitum líka að það eru erfiðleikar á kjötmarkaði, við sjáum það á tilboðum og útsölum sem hafa orðið að það er mjög hart barist á þessum markaði, aðstæðurnar eru á margan hátt mjög þröngar sem hefur valdið miklum erfiðleikum víða í kjötframleiðslunni. Þess vegna hefur komið upp sú hugmynd meðal bænda, m.a. samtaka bænda, hvort ekki væri eðlilegt að taka ákvæðið sem sneri að útflutningsskyldunni upp að nýju, að freista þess að taka upp útflutningsskylduna þó ekki væri nema um stundarsakir meðan við erum að komast í gegnum mestu erfiðleikana.

Sjálfur tel ég það vera eðlilega kröfu af hálfu bænda að svo sé gert og hafði raunar rætt þetta við forustumenn bænda á liðnu hausti. Ég hafði hugsað mér að það gæti orðið hluti af þeim samningum sem við reyndum að ná milli bænda og ríkisvaldsins varðandi framlengingu á búvörusamningunum en það hefur greinilega ekki orðið niðurstaðan í þeim samningum sem tókust á milli bænda og ríkisvaldsins og bændur hafa nýverið staðfest með atkvæðagreiðslu sinni. Ýmis rök mæla með þessu, aðstæður á kjötmarkaðnum, það er nauðsynlegt að hafa möguleika til að jafna framboð á markaði og því er mikilvægt að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi heimild til að setja á útflutningsskyldu ef útlit er fyrir að kjötmarkaðurinn sé að taka dýfu eins og hann hefur verið að gera upp á síðkastið. Við vitum líka að innlend kjötvara hefur frekar stuðlað að lægra verði innan lands en hitt og það er ljóst að útflutningsskyldan hefur alls ekki hamlað því.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hver sé afstaða hans til þess að framlengja útflutningsskyldu á dilkakjöti.