137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

útflutningsskylda dilkakjöts.

8. mál
[14:16]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina. Það er ljóst að inn í þennan búvörusamning komu 300 millj. gegn því að útflutningsskyldan færi út. Um þetta voru mjög skiptar skoðanir meðal bænda á þeim tíma og var meðal annars flutt breytingartillaga um þetta í þinginu. Persónuleg afstaða mín gagnvart þessu er sú að ekki væri rétt að hefja útflutningsskyldu á nýjan leik á dilkakjöti. Það voru ákveðnir vankantar á þessari útflutningsskyldu og hún var umdeild meðal bænda. Það tóku ekki allir bændur þátt í henni, þeir sem þekkja svokallaða 0,7 reglu þekkja það. Mín persónulega skoðun á þessu máli er sú að skoða beri aðrar leiðir og hugsanlega að skoða útflutning landbúnaðarafurðanna í heild sinni eða a.m.k. að tryggt verði að allir sauðfjárbændur taki þátt í þeim útflutningi.