137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

útflutningsskylda dilkakjöts.

8. mál
[14:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það vill svo til að formaður og framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda voru á fundi hjá mér í morgun og þeir eru ekki sömu skoðunar og fyrrverandi ráðherra og núverandi hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Mér finnst endilega að hv. þingmaður ætti að vita betur en hann lætur í ræðustól.

Ég minni aftur á af því að hv. þingmaður er að gera sig breiðan að hann greiddi atkvæði gegn tillögu um að þessi heimild væri inni fyrir landbúnaðarráðherra í samningnum en þáverandi samþingmaður hans, Einar Oddur Kristjánsson heitinn, flutti þá tillögu. Hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni var því ekki meira umhugað um málið en það. (EKG: Hver er skoðun þín núna?) Ég er þeirrar skoðunar að útflutningur eigi að vera unninn á sameiginlegum grunni og það eigi að bera alla hagsmuni þar saman. Ef bændur finna aðra leið sem þeir lögðu upp fyrir mig í morgun og ég ætla ekki að rekja hér, forsvarsmenn Landssamtaka sauðfjárbænda lögðu upp fyrir mig í morgun og ég mun skoða með þeim, hygg ég að þeir geti komist að sömu niðurstöðu og til sama gagns en það á að skoða þetta allt saman.

Frú forseti. Mér finnst að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson eigi að horfa á og ræða málið jákvætt en ekki stöðugt að vitna til þess þegar hann sveik samninga á bændum síðastliðið haust, (Gripið fram í.) t.d. varðandi skerðingu á þeim samningi. Hagsmunir sauðfjárræktarinnar eru þeir að geta verið með öfluga og góða framleiðslu og líka til útflutnings og það á reyndar við um landbúnaðinn allan. Þar liggja hagsmunir okkar, að vera með þessa framleiðslu og geta hafið arðsaman útflutning á landbúnaðarvörum og að því stefnum við. (BJJ: Nú ertu búinn að staðfesta það.) En það má vera félagslegur grunnur á bak við.