137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

starfsemi banka og vátryggingafélaga.

19. mál
[14:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram tvær fyrirspurnir til hæstv. viðskiptaráðherra er varða starfsemi banka annars vegar og vátryggingafélaga hins vegar. Okkur er öllum ljóst að eftir hrun bankakerfisins hafa vaknað margar spurningar um það fyrirkomulag sem við höfum valið á starfsemi banka hér á landi, viðskiptabanka, fjárfestingarbanka. Það er rétt í því sambandi að rifja það upp og minna á að á hv. Alþingi hafa á undanförnum árum verið lögð fram þingmál, frumvörp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og m.a. á 135. löggjafarþingi frumvarp til laga sem hæstv. núverandi ráðherrar og hv. þáverandi þingmenn, Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason, sem sitja í ríkisstjórn með hæstv. viðskiptaráðherra eins og kunnugt er, voru flutningsmenn að, frumvarp sem þeir hafa svo sem flutt áður, um að skipta upp starfsemi banka í viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingarbanka hins vegar. Meginrökin fyrir því eru að reyna að lágmarka það tjón sem almennir viðskiptavinir bankanna geta orðið fyrir þegar í slíkt óefni er komið eins og við lentum í í kjölfar bankahrunsins. Þetta er fyrirkomulag sem er þekkt víða í kringum okkur, að takmarka starfsemi almennra viðskiptabanka annars vegar og fjárfestingarbanka hins vegar en ekki að súrra því öllu saman eins og við höfum valið að gera með gríðarlega miklum og slæmum afleiðingum eins og dæmin sanna.

Hið sama má í raun og veru segja með tryggingafélögin. Meginverkefni þeirra er auðvitað að sjá um vátryggingar fyrir einstaklinga og lögaðila og það er mikilvægt að þeir sem nýta sér þessa þjónustu, kaupa tryggingar, geti treyst því að verða ekki fyrir tjóni vegna annarrar starfsemi sem vátryggingafélögin stunda. Allt er þetta afleiðing af græðgisvæðingunni sem reið húsum í okkar samfélagi og víðar á undanförnum árum, að menn voru fyrst og fremst að hugsa um að græða sem allra, allra mest en ekki endilega um það hvað væri best fyrir hina almennu viðskiptavini. Ég tek eftir því að í Morgunblaðinu 17. maí sl. tjáir hæstv. viðskiptaráðherra sig um þetta mál að því er varðar tryggingafélögin og segir þar að farið verði yfir þessi mál og reyndar margt fleira og segir þar, með leyfi forseta:

„Augljóst er að þessar fjárfestingar orka mjög tvímælis þótt ekki sé dýpra í árinni tekið.“

Ég hef verulegar áhyggjur af þessu máli og af því tilefni hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka verði aðskilin í lögum?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að starfsemi vátryggingafélaga og fjárfestingarfélaga verði aðskilin í lögum?