137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

starfsemi banka og vátryggingafélaga.

19. mál
[14:25]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Þetta er hugmynd sem er vissulega vert að skoða og er raunar verið að skoða og þótt atburðir undanfarinna missira hérlendis og raunar erlendis líka gefi kannski meira tilefni til að skoða þetta nú en alla jafna þá er umræðan gamalkunn og alls ekki séríslensk.

Aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka er eitt af þeim úrræðum sem var beitt í Bandaríkjunum í kjölfar kreppunnar miklu með svokallaðri Glass-Steagall löggjöf frá árinu 1933 sem skildi á milli þessara tveggja tegunda banka og var ekki afnumin fyrr en árið 1999 og raunar eru menn nú að takast á um það í Bandaríkjunum hversu heppileg eða óheppileg sú breyting var, þ.e. að afnema þessi lög.

Helsti kostur við að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka er augljóslega sá að ekki er verið að hætta innstæðum almennings eða annarra í fjárfestingarbankastarfsemi. Sem dæmi má nefna að fall stórbankans Lehman Brothers sem var eingöngu fjárfestingarbanki hafði ekki nein bein áhrif á sparifé almennings ólíkt því sem gerst hefur þegar viðskiptabankar hafa lent í verulegum vandræðum. Jafnframt gæti löggjöf þessa efnis sett framtíðarvexti banka nokkrar skorður en við Íslendingar þekkjum vitaskuld afar vel á eigin skinni þau vandræði sem hlotist geta af ofvexti banka þótt vitaskuld sé ekki alltaf óheppilegt að bankar vaxi eitthvað. Viðskiptabankar gætu þá ekki hagnast og vaxið vegna fjárfestingarbankastarfsemi og jafnframt gætu fjárfestingarbankar ekki vaxið vegna þess að þeim tekst að laða til sín innlán almennings. Þá gæti þetta auðveldað eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Þetta eru helstu kostirnir. Það mætti reyndar rekja þetta í mun lengra máli en hér er tími til en ég ætla ekki að gera það nú.

Ókostirnir við slíka löggjöf eru aðallega vegna ýmissa hagkvæmnissjónarmiða sem hægt er að rekja í stuttu máli. Íslendingar eru vitaskuld fámenn þjóð og það gæti reynst frekar óhagkvæmt að reka hér marga litla viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Jafnframt er mikilvægt að geta þess að menn eru raunar ekki á eitt sáttir um það hvort og að hversu miklu leyti hremmingar sem dunið hafa yfir alþjóðleg fjármálafyrirtæki eru því að kenna að þar hafa verið í sömu stofnun oft bæði viðskiptabanki og fjárfestingarbanki. Ef horft er á það hvaða alþjóðlegir bankar hafa staðið best af sér kreppuna þá eru það raunar alhliða bankar með íhaldssama fjárfestingarstarfsemi eins og finna má mörg dæmi um í Kanada, en kanadíska bankakerfið er með réttu oft tiltekið sem dæmi um eitt af fáum heilbrigðum bankakerfum nú á dögum. Kanadískir bankar hafa ekki orðið fyrir neinu verulegu útlánatapi og eru enn með mjög hátt lánshæfismat ólíkt t.d. bönkum sunnan við landamærin, í Bandaríkjunum.

Það er hins vegar vilji minn sem ráðherra að ef við leyfum áfram alhliða bankastarfsemi, þ.e. bæði viðskipta- og fjárfestingarbanka í einni og sömu stofnun, verði það með mun strangari löggjöf og mun meira eftirliti, sérstaklega með fjárfestingarstarfsemi bankanna, en hefur verið hingað til. Í þeim mæli sem slík bankastarfsemi yrði leyfð yrði hún því í strangara umhverfi laga og undir strangara eftirliti en til þessa. Í þessu samhengi verður auðvitað að huga sérstaklega að stöðu Íslands gagnvart regluverki Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins um fjármálaþjónustu sem gildir hér á landi. Það kann að vera varhugavert að Ísland skeri sig þar mjög úr og ríði á vaðið og setji í lög takmarkanir á starfsheimildum fjármálafyrirtækja áður en fyrir liggur hvaða breytingar verða gerðar á evrópsku regluverki.

Hvað varðar vátryggingafélög sérstaklega skal á það bent að fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi. Í því frumvarpi er að finna skýra afmörkun á starfsheimildum vátryggingafélaga gagnvart annarri starfsemi. Hvorki er heimilt samkvæmt gildandi lögum né samkvæmt frumvarpinu að reka vátryggingafélag og fjárfestingarfélag í einu og sama félaginu. Vátryggingafélögum er heimilt að reka viðskiptabanka eða aðra fjármálastarfsemi í sérstöku félagi enda sé viðkomandi starfsemi háð opinberu eftirliti. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram að brjóti vátryggingafélag gegn þeim lögum sem um starfsemi þess gilda á Fjármálaeftirlitið að hafa öll nauðsynleg úrræði til að grípa inn í og fréttir undanfarinna vikna af íslenskum tryggingamarkaði og fjárfestingum tryggingafélaga gefa tvímælalaust tilefni til að skoða þessi mál og sérstaklega fjárfestingarstefnu og fjárfestingarheimildir tryggingafélaga.