137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

flutningskostnaður á landsbyggðinni.

22. mál
[14:38]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil vísa til þess sem fram kom í svari þáverandi viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jón Bjarnasonar á 135. löggjafarþingi 2007–2008, um beinar aðgerðir til þess að jafna flutningskostnað, sem sjá má á þingskjali 1317, að stjórnvöld hættu þá við áform um að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð olíuvara miðað við septemberlok 2008 eins og gert hafði verið ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir það ár.

Vegna þessarar breyttu afstöðu, sem leiddi til um 150 millj. kr. aukaútgjalda samkvæmt fjárlögum, var ákveðið að nýta ekki 150 millj. kr. fjárhæð á fjárlögum fyrir það ár í flutningsjöfnun almenns eðlis á landsbyggðinni. Í fjárlögum fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir áframhaldandi starfsemi flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og 475 millj. kr. útgjöldum sjóðsins á árinu. Í drögum að fjárlögum fyrir árið 2010 er einnig gert ráð fyrir áframhaldandi starfsemi sjóðsins og nokkurri hækkun á útgjöldum hans. Að öðru leyti hefur ekki verið tekin ákvörðun um framtíð sjóðsins.

Þá virðist því miður vart í kortunum á þessu ári eða hinu næsta vegna stöðu ríkissjóðs að gera ráð fyrir sérstökum framlögum til almennrar flutningsjöfnunar á landsbyggðinni en það er vitaskuld á endanum þó ákvörðun Alþingis sem fer með fjárveitingavaldið.

Ég vil bæta því við að ég er sjálfur almennt ekki mjög hrifinn af þeirri aðferð að leggja gjöld á einstakar vörur um land allt til að jafna kostnað við dreifingu á þeim heldur tel ég að önnur tæki séu skilvirkari og geti gert meira gagn við að hafa áhrif á lífskjör landsmanna til jafnaðar. Má þá t.d. beita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða öðrum slíkum tækjum en sérstakar álögur á vörur sem síðan eru notaðar til niðurgreiðslna eru almennt ekki mjög skilvirkar að mínu mati.