137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

flutningskostnaður á landsbyggðinni.

22. mál
[14:45]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Það er verst að ég hef bara eina mínútu til að ræða hér um flutningskostnaðinn. Ég tók eftir því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson var að spyrja um hann. Ég heyrði að vísu ekki ræðu hans en það er rétt að rifja aðeins nokkur atriði upp.

1999–2003 var Framsóknarflokkurinn í viðskiptaráðuneytinu og þá var aldrei gerður nokkur skapaður hlutur í jöfnun flutningskostnaðar. (GBS: Nú getur þú gert eitthvað.) Í ríkisstjórn 2003–2007 sat Framsóknarflokkurinn enn í viðskiptaráðuneytinu og það var ekki gerður nokkur skapaður hlutur í jöfnun flutningskostnaðar á landsbyggðinni.

Hins vegar tók sú ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákvörðun, við gerð fjárlaga fyrir árið 2008, um að leggja olíujöfnunarsjóð niður eins og kom fram áðan. Og það var ákvörðun þeirrar ríkisstjórnar, þeirra sömu flokka, að leggja niður flutningsjöfnunarsjóð á sementi. (GBS: Hvað hyggst þú gera?) Þess vegna, virðulegi forseti, ættu þeir að líta sér aðeins nær, en vonandi fer þetta að ganga.

Ég vil aðeins geta þess, og menn ættu kannski að hafa það í huga eins og hv. þingmaður sem var að ræða þetta áðan, að við þá breytingu að hækka bensín og olíu og brennivín og tóbak, sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur studdu í desember síðastliðnum, (Forseti hringir.) var stigið það skref að þungaskattur er í fyrsta skipti lækkaður (Forseti hringir.) um 20% í aðgerðum núverandi ríkisstjórnar núna. Hvenær hefur það gerst áður, virðulegi forseti? Það gerðist (Forseti hringir.) akkúrat núna í samstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að fyrstu skrefin eru stigin í þessa átt.