137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.

42. mál
[14:54]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þessa fyrirspurn en þingmaðurinn tók einmitt upp málefni Hólaskóla í þessum fyrirspurnatíma fyrir viku og það er ljóst að það er mikill áhugi á framtíð landbúnaðarmenntunar í landinu og er það mjög gott mál.

Ég held að sú sameining sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um eða þessar hugmyndir um sameiningu verði að setja í samhengi við þá almennu vinnu sem nú stendur yfir. Í desember síðastliðnum, eins og hér hefur komið fram, voru skipaðar tvær nefndir til að fjalla um möguleg viðbrögð stjórnvalda við því hvernig mætti þróa háskólakerfið áfram í því erfiða efnahagsástandi sem þá var við að eiga og er enn við að eiga. Verkefnisstjórn um háskóla og vísindi og erlend sérfræðinganefnd, þessar tvær nefndir, hafa báðar lokið úttekt sinni á háskólastiginu og stofnanaumhverfi rannsókna. Meðal þeirra tillagna sem þar eru settar fram eru fækkun háskóla og sameiningar stofnana.

Í skýrslu erlendu ráðgjafanefndarinnar, bara svo að því sé haldið til haga, koma fram mjög afgerandi tillögur um uppstokkun háskólakerfisins og lagt er til að stofnaðir verði í raun og veru tveir háskólar og að sameinaðar verði stofnanir undir hatti tveggja háskóla og það sé besta módelið til að tryggja langtímaárangur, viðhalda ákveðnum hugsjónum um samkeppni en efla um leið samstarf og verkaskiptingu skólanna.

Í ráðuneytinu er þegar hafin vinna við að skoða og rýna í þessar tillögur og rýnihópur um þessi háskólamál heldur sinn fyrsta fund í dag því að ég held að mjög mikilvægt sé að háskólasamfélagið taki þátt í þessari vinnu og átti sig á því hvaða leiðir það telji vænlegastar til árangurs þannig að sá rýnihópur starfar og vonandi mun hann skila af sér. Honum hefur verið sett að starfa núna í júní og skila af sér fyrir mánaðamót og móta tillögur um hvernig sé best að útfæra þær tillögur sem settar eru fram í skýrslum sérfræðinganefndanna tveggja. Það er því litið svo á að þær fái ákveðna meðferð hjá þeim sem þekkja bæði innlent og erlent háskólaumhverfi, starfa í umhverfinu og geta horft á það án þess að horfa á það eingöngu út frá stofnunum heldur út frá heildinni.

Hvað varðar Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þá hafa að sjálfsögðu orðið miklar breytingar í starfsumhverfi landbúnaðar á undanförnum árum og miklar breytingar á starfsemi landbúnaðarskólanna beggja. Við höfum séð mikla uppbyggingu eins og hv. þingmaður kom hér að í fyrirspurn sinni. Skólarnir hafa farið upp á háskólastig, námsbrautum hefur fjölgað og þverfaglegar rannsóknir hafa aukist og við höfum séð mikla uppbyggingu í báðum skólunum. Síðan voru þeir færðir frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis og það í rauninni lítum við líka á sem mikilvægt innlegg til að horfa heildstætt á háskólamenntun í landinu.

Í ljósi þessara vangaveltna allra um breytingar á stofnanakerfi háskóla var stofnuð nefnd 4. mars, eins og hv. þingmaður nefndi, til að skoða hvaða ávinning sameining stofnananna hefði í för með sér fyrir háskólakerfið í heild, fyrir eflingu fræðasviða, auðlinda- og búvísinda og náttúruvísinda, áhrif sameiningar á gæði kennslu, námsframboð og eflingu rannsókna og hvort menn sæju líka einhverjar ógnanir eða galla við hugsanlega sameiningu. Þessi nefnd átti einnig að skoða starfsnámið í landbúnaðarháskólunum en þar er um að ræða fimm námsbrautir: Búfræði, garðyrkjuframleiðsla, blómaskreytingar, skrúðgarðyrkja og skógur/umhverfi. Búfræðin er kennd á Hvanneyri en auðvitað fer stór þáttur starfseminnar fram á Reykjum í Ölfusi og að þessu þarf að huga í þessu starfi öllu saman.

Fjármögnun skólans er enn með þeim hætti að hann fær ekki fjármuni samkvæmt reiknilíkaninu sem aðrir háskólar fá fjármunum úthlutað eftir samkvæmt nemendaígildum í kennslu heldur er fjármögnunin einfaldlega eitt fjárframlag frá menntamálaráðuneyti og síðan framlag frá landbúnaðarráðuneyti til rannsókna og að því þarf líka að huga, þ.e. hvernig þessum skólum verður komið fyrir innan þess reiknilíkans sem notað er til að móta fjárveitingar til háskóla.

Fýsileikanefndin er komin mjög áleiðis í sinni vinnu en hún hefur ekki enn þá skilað af sér. Hún skilar af sér núna um miðjan júní. Nefndin hefur heimsótt bæði HÍ og landbúnaðarháskólann og sjálf hef ég farið núna í heimsókn í landbúnaðarháskólann og rætt þar við starfsfólk og nemendur. Ég held að lykilatriðið í þessu sé að það stendur ekkert annað til en að viðhalda öflugri starfsemi á Hvanneyri áfram. Þetta er gríðarlega mikilvægur staður fyrir menntasamfélagið og samfélagið allt í Borgarbyggð og í Borgarfirðinum þannig að ekkert annað stendur til. Hins vegar munum við skoða niðurstöður nefndarinnar með opnum huga þegar þær koma og hvaða tækifæri geta hugsanlega falist í þessari stöðu.