137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.

42. mál
[15:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Mér hefur fundist frá því að þessi ágæta ríkisstjórn tók við, eða í þá 120–130 daga sem þessir flokkar eru búnir að starfa saman, að það hafi ríkt mikil óvissa um einmitt framtíð þessara skóla, og nú tala ég í fleirtölu og á þá við landbúnaðarskólana og í rauninni þessa svokölluðu sjálfstæðu skóla. Þess vegna er mikilvægt að ráðherra eyði sem fyrst allri óvissu um framtíð þeirra. Mér finnst ekki hafa komið nógu vel fram hjá ráðherranum hver er skoðun hennar á þessu máli.

Er það rétt skilið hjá mér að í lok júní muni liggja fyrir niðurstöður eða sú nefndarvinna sem hún nefndi eða erum við að tala um að það verði enn þá síðar? Telur ráðherra að það séu verulegar líkur á því að þessir skólar muni starfa áfram sem sjálfstæðir skólar (Forseti hringir.) eða sér hún fyrir sér einn stóran ríkisháskóla?