137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.

42. mál
[15:04]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að hafna því að ríkt hafi aukin óvissa um málefni þessara skóla frá því að sú sem hér stendur tók við embætti menntamálaráðherra 1. febrúar. Við skulum ekki gleyma því að þau tímamót urðu í starfi skólanna um áramótin 2007–2008 að þeir voru færðir frá landbúnaðarráðuneytinu til menntamálaráðuneytisins. Ég var, eins og kom fram í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, ánægð með þá breytingu því að mér finnst það skipta máli að horfa heildstætt á háskólamenntun í landinu og landbúnaðarháskólarnir eiga að sjálfsögðu að vera hluti af því samhengi.

Hins vegar er það alveg ljóst að enn hefur ekki gengið að fella þessa skóla að reiknilíkani því sem aðrir háskólar vinna samkvæmt þannig að óvissan hefur verið allmiklu lengur en ég hef verið starfandi í menntamálaráðuneytinu svo það liggi algjörlega ljóst fyrir.

Ég vil líka segja út af orðum um að skýrslunni um Hóla hefði verið stungið undir stól að hún hefur verið til umræðu a.m.k. nokkrum sinnum í þessum sal síðan ég tók við sem ráðherra, nú síðast fyrir viku. Það liggur fyrir að báðir skólarnir hafa átt í rekstrarvanda og það hefur alltaf verið algjörlega ljóst af minni hálfu að mér finnst mjög mikilvægt að úr honum sé leyst áður en framtíðarákvarðanir verða teknar um rekstrarform skólanna. Að sama skapi finnst mér mjög mikilvægt að niðurstöður þeirrar endurskipulagningar sem hefur verið unnið að síðan í desember 2008, í vinnu sem hófst að frumkvæði forvera míns í ráðuneytinu, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, liggi fyrir áður en ráðist verður áfram í þessi mál.

Það er alveg rétt að þarna er óvissa en það er óvissa almennt á háskólastiginu. En ég held líka að í þeirri óvissu felist mikil tækifæri, ég skynja það innan úr háskólunum að þar er fólk mjög reiðubúið til að skoða þessi mál. Hér eru margir háskólar, það hefur orðið fjölgun á háskólanemum sem ég held að við getum öll verið sammála um að er mjög jákvætt en það er líka þörf á því að staldra núna við og skoða þetta kerfi í samhengi. Það snýst ekki um að búa til einn stóran skóla. Hins vegar skiptir máli að efla samstarf, auka verkaskiptingu, ná fram samlegðaráhrifum því að við erum að tala um framtíð íslensks háskólasamfélags í samkeppni við útlönd (Forseti hringir.) á mjög erfiðum tímum þar sem skiptir miklu máli að standa vörð um þetta samfélag og efla það enn frekar.