137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum stöðu og vanda heimilanna í landinu, vanda sem byggist á bankahruni, gengi krónunnar, verðbólgu liðinna mánaða, verðtryggingu og háum vöxtum, vanda sem eykst þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar. En til þess að geta komið heimilunum til bjargar þarf að leysa önnur brýn verkefni. Það þarf fyrst og síðast að koma bankakerfinu í gang og hafa heildarframtíðarsýn í ríkisfjármálum. Það er líka nokkuð ljóst, frú forseti, að atvinnulífið fer ekki almennilega í gang fyrr en við búum við skilvirkt bankakerfi, nýja peningastefnu, lækkun vaxta og afnám gjaldeyrishafta. Þá fyrst dregur úr atvinnuleysi, hjólin fara að snúast á nýjan leik til hagsbóta fyrir fjölskyldur í landinu. Þessir þættir eru forsenda þess, frú forseti, að möguleiki verði að koma þjóðinni til bjargar.

Frá hruni bankanna hefur verið gripið til ýmissa aðgerða með lögum. Má þar nefna greiðsluaðlögun, breytingar á greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, greiðslu séreignarsparnaðar, vaxtabóta og annað í þeim dúr. En þetta, frú forseti, dugar ekki fyrir fjölskyldurnar í landinu, því miður.

Við sjálfstæðismenn höfum talað um að íbúðareigendur eigi að geta lækkað greiðslubyrði sína um allt að helming í þrjú ár og framlengt lánstímann á móti. Jafnframt að hugað verði að höfuðstólslækkun til að mæta þeim forsendubresti í hagkerfinu sem orðið hefur. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögu um 20% flatan niðurskurð og hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur talað fyrir áþekkri tillögu eða nefnt 4 millj. kr. Ekkert af þessu er skoðunarvert af hálfu ríkisstjórnarinnar, öllu er ýtt út af borðinu og, frú forseti, það eru óásættanleg vinnubrögð í því árferði sem nú er og þeim vanda sem fjölskyldur í landinu standa frammi fyrir.

Ég tel að ekki verði hjá því komist að grípa til sérstakra aðgerða vegna þeirra sem eiga í verulegum vanda. Margar leiðir eru á þeirri vegferð en hver þeirra sem farin er þá er nauðsynlegt fyrir fjölskyldurnar að meta markaðsverð eigna þeirra og það verði síðan þekkt stærð því að ef bankinn eða Íbúðalánasjóður gengur að skuldara og selur eignina þarf þetta að vera ljóst. Síðan þarf að meta greiðslugetu viðkomandi fjölskyldu. Ef greiðslugeta fjölskyldunnar nær markaðsvirði eignarinnar græðir enginn á því að ganga að fjölskyldunni ef skuldirnar eru hærri en markaðsvirðið og senda fjölskylduna í gjaldþrot og út á götu. Bankar og Íbúðalánasjóður þyrftu að afskrifa sömu tölu hvort sem gengið væri að fjölskyldunni eður ei og það vinnst ekkert svo það sé ítrekað, frú forseti, með því að ganga að fjölskyldunni, gera hana gjaldþrota og senda hana á götuna. Vandamálið kann að vera stærra þar sem skuldir eru meiri en markaðsvirði eigna og greiðslugeta minni. Þá má hugsa sér að þeirri fjölskyldu gæti gefist frestun á greiðslu á þeim mismun sem er á greiðslugetu og markaðsvirði í einhvern tíma. En hvaða leið sem valin er núna sem sértæk leið þá þarf alltaf að afskrifa skuldir umfram markaðsvirði. Það er staðreynd og það þarf ríkisstjórnin að horfast í augu við.

Hvort er skynsamlegra, frú forseti, að það verði gert í þágu fjölskyldna í landinu eða banka, fjárfesta og Íbúðalánasjóðs? Svarið er einfalt, frú forseti: Að sjálfsögðu í þágu fjölskyldna í landinu. Og hópurinn sem er í þessari stöðu er á aldrinum 20–40 ára, fólkið sem á að standa í því að endurbyggja þetta land þegar til framtíðar er litið. Einhverjir úr þessum hópi í dag, frú forseti, eru nú í hópi atvinnulausra eða hafa tekið á sig launalækkun. Flestar þessar fjölskyldur réðu við afborganir sínar í upphafi árs 2008 en ytri aðstæður, hrun krónunnar og verðbólga hafa sett þær fram á bjargbrúnina. Allt tal um hugsanleg brot á jafnræðisreglu ef við tökum til hendinni og hjálpum þessum hópi er bull, frú forseti, vegna þess að við brutum jafnræðisregluna þegar við settum 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóðina í upphafi árs. Það kann að hafa verið, frú forseti, til að viðhalda trú á kerfinu en það er brýn nauðsyn nú til að koma fjölskyldum í landinu til hjálpar. (Forseti hringir.) Við þurfum að huga að því, frú forseti, að við sem erum á Alþingi erum hér fyrir fólkið í landinu en ekki vegna fólksins í landinu.