137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:34]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan eitthvað á þá leið að um 60% heimila virtust ætla að pluma sig í kreppunni án þess að lenda í vanskilum. Því ber auðvitað að fagna. Það er dásamlegt. 60% heimila ætla að komast í gegnum kreppuna án þess að lenda í verulegum vandræðum.

Hitt er ekki jafnjákvætt að þá er eftir að huga að þeim 40% heimila sem ekki virðast ætla að pluma sig í gegnum kreppuna án þess að lenda í verulegum vanskilum. Rétta talan er reyndar ekki 40%, nýjasta talan er 42%. Það eru 42% heimila á Íslandi sem hafa neikvæða eða afar þrönga eiginfjárstöðu. Og hvað um þau? Hvað er verið að gera þeim til hjálpar? Í stað hjálpar búa þessi heimili við sértækar, flóknar og jafnvel lítillækkandi aðgerðir af hálfu stjórnarinnar. Teygjulán, bómullargjaldþrot og því um líkt.

Þau búa við handstýrða vísitölu, þau búa við handstýrða okurvexti og þau búa við þá vitneskju að alþýðu Íslands verður falið að greiða ekki bara sínar skuldir upp í topp heldur líka skuldir verstu óreiðumanna sem Íslandssagan kann frá að greina. Þetta er sá hluti af stöðu heimilanna sem við hjá Borgarahreyfingunni höfum sérstakan áhuga á jafnvel þótt við sendum árnaðaróskir okkar til þeirra 60% eða 58% sem betur mega sín.

Það eru engar heildstæðar eða altækar aðgerðir fyrirhugaðar. Skeytingarleysið um vanda og hagsmuni heimilanna er svo himinhrópandi að ég yrði ekki hissa þótt ég heyrði hérna frammi í okkar ágæta mötuneyti hæstv. forsætisráðherra spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Af hverju borðar fólkið ekki kökur? (Gripið fram í: Góð vísa er aldrei of oft kveðin.)