137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hafi einhverjir hv. þingmenn eða landsmenn gert sér vonir um að hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra mundu skýra með einhverjum hætti í þessari umræðu hvernig þau og ríkisstjórnin hygðust koma til móts við skuldavanda heimila í landinu hafa viðkomandi orðið fyrir sárum vonbrigðum. Hér töluðu leiðtogar ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, og hvorugur þessara leiðtoga ríkisstjórnarinnar kom með nokkuð sem hönd á festi til að leysa úr þeim vanda sem mörg heimili í landinu vissulega standa frammi fyrir. Við getum deilt um það hversu margir nákvæmlega eiga í verulegum greiðsluvanda, við vitum hins vegar að það eru þúsundir fjölskyldna í landinu sem eiga í þeim vanda. Þúsundir fjölskyldna hafa orðið fyrir þungum áföllum vegna hækkandi greiðslubyrði, vegna atvinnumissis eða verulegs tekjumissis sem kemur hart niður á þeim.

Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra notuðu a.m.k. ekki þetta tækifæri sem gafst við þessa umræðu til að koma með svo mikið sem eitt einasta atriði sem mætti verða til að bæta stöðu þessa fólks, ekki eitt einasta atriði. Þau voru með ýmsar lýsingar á vandanum, sögulega upprifjun á ýmsum aðgerðum sem gripið hefur verið til á undanförnum mánuðum, aðgerðir sem ég get tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, að eru ágætar svo langt sem þær ná.

Ég tók þátt í því í vor að samþykkja lög um greiðsluaðlögun o.fl. sem vissulega getur komið til móts við ákveðna hópa, ákveðna einstaklinga sem eru komnir í veruleg vandræði, sem í raun og veru eru komnir á barm gjaldþrots. En varðandi alla hina sem eru miklu, miklu fleiri, öll hin heimilin sem eiga við gríðarlegan greiðsluvanda að stríða er svar ríkisstjórnarinnar ekki neitt, við bara bíðum af okkur vandann. Það er útspil ríkisstjórnarinnar ef marka má ræður hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra.

Ég ætla ekki að fara yfir það í sjálfu sér, það hefur komið ágætlega fram við umræðuna þannig að ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir þau vandamál sem við er að stríða. Það er hins vegar rétt sem kom fram hjá hv. fyrsta ræðumanni í þessari umræðu, hv. formanni Framsóknarflokksins, að vandinn er ekki að minnka, hann er að aukast, vandinn hvað varðar greiðsluvandræði einstaklinga og heimila og raunar fyrirtækja líka, vandinn varðandi atvinnustöðuna. Við vitum líka að vandi fyrirtækjanna er ekki að minnka, hann er að aukast og hann getur orðið töluvert meiri á næstu mánuðum með hörmulegum afleiðingum, gjaldþrot í fyrirtækjum hafa áhrif á fjölda heimila eins og menn þekkja.

Með þessu er ég ekki, eins og hæstv. forsætisráðherra gaf í skyn áðan, að mála skrattann á vegginn. Það vil ég ekki en við getum heldur ekki reynt að mála yfir skrattann á veggnum, við getum ekki reynt að fela vandann með því að þykjast ekki horfast í augu við hann, við getum það ekki. Við verðum að takast á við þau vandamál sem við eigum við að glíma, við verðum að leggja fram tillögur og úrræði og miðað við hvernig ríkisstjórnin skilar auðu í þessari umræðu mun það koma í hlut okkar í stjórnarandstöðunni að leggja fram tillögur (Forseti hringir.) sem geta horft til úrbóta.