137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:50]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í dag eru mörg heimili í miklum vanda þar sem ráðstöfunartekjur þeirra hafa rýrnað vegna launalækkana, hækkandi verðlags og aukinnar greiðslubyrði lána. Verst er ástandið hjá þeim sem hafa misst vinnuna. Það verður aldrei hægt að ná þjóðarsátt um endurreisn hagkerfisins nema tekið verði á skuldavanda heimilanna. Ef gripið hefði verið til aðgerða strax í haust væri vandinn í ríkisfjármálum eða tekjufall ríkissjóðs ekki jafnmikið og raun ber vitni.

Á síðasta og þessu ári er gert ráð fyrir að verðbólgan verði um 26% sem mun að öllu óbreyttu leggjast með fullum þunga á skuldsett heimili sem búa við verðtryggingu. Ef húsnæðislán landsmanna hefðu verið með föstum nafnvöxtum til fimm ára, eins og víða þekkist á Norðurlöndunum, hefði verðbólguskotið lent að mestu leyti á lánveitendum eða bönkum, sparisjóðum og Íbúðalánasjóði en ekki lántökum eins og heimilunum. Rúmlega 40 lönd hafa frá árinu 1970 þurft að kljást við banka- og gjaldeyriskreppu og flest þeirra tókust á við kreppuna án þess að vera með verðtryggingu. Verðbólguskotið sem fylgdi í kjölfar hrunsins létti því skuldabyrði heimilanna í þessum löndum og varnaði því að kreppan yrði eins djúp og hún á eftir að verða hér á landi ef ekki er brugðist við hið fyrsta.

Nauðsynlegt er að leiðrétta höfuðstól húsnæðislána til að draga úr fjölda þeirra sem verða gjaldþrota og til að ná fram sanngjarnri skiptingu skuldabyrða af völdum fjármálakreppunnar. Við gjaldþrot heimila hverfa fasteignalán ekki heldur falla beint og óbeint á skattgreiðendur. Auk þess draga gjaldþrot heimila enn frekar úr eftirspurn í hagkerfinu og kreppan dýpkar þar af leiðandi.

Á undanförnum mánuðum hafa komið fram kröfur um að verðbólguhækkun höfuðstóls fasteignalána og afborgana verði leiðrétt. Mörgum mun finnast slík leiðrétting óréttlát gagnvart þeim sem ekkert skulda. Það má hins vegar ekki gleyma því að verulega hallar á skuldsett heimili í þeim björgunaraðgerðum sem nú þegar hefur verið gripið til. Jafnframt er lítið réttlæti falið í því að láta skuldsett heimili taka á sig auknar byrðar í hlutfalli við skuldastöðu þeirra.

Í byrjun mars sl. taldi Seðlabankinn að um 34 þúsund heimili væru komin með eða væru nálægt því að hafa neikvæða eiginfjárstöðu. Bankinn hefur jafnframt spáð því að raunvirði fasteignaverðs muni lækka um 30% til ársins 2010. Brugðist hefur verið við með því að bjóða upp á greiðslujöfnun og greiðsluaðlögun fyrir þá sem eru komnir í þrot með lánin. Þetta eru sértækar aðgerðir sem byggja á mati á þörf hvers og eins fyrir aðstoð. Áhersla á sértækar aðgerðir eins og greiðslujöfnun og greiðsluaðlögun eru ekki í samræmi við grundvallarmarkmið norræna velferðarkerfisins þar sem öllum er tryggður sami réttur án tillits til þjóðfélagsstöðu og síðan er skattkerfið notað til að ná fram jöfnuði.

Að minnsta kosti sex leiðir hafa verið lagðar til um hvernig taka megi á skuldavanda heimilanna. Þessar leiðir felast annaðhvort í því að lækka höfuðstól eða lækka greiðslubyrði. Aðgerðir þessar munu fela í sér eignatilfærslu frá einum hópi einstaklinga til annars þar sem ekki er búið að afskrifa öll fasteignalán landsmanna og leiðréttingin mun því að einhverju leyti falla á ríkissjóð og þar með á skattgreiðendur.

Frú forseti. Ég legg því til að hæstv. forsætisráðherra skipi nefnd með fulltrúum (Forseti hringir.) allra hagsmunaaðila til að fara yfir og ná samkomulagi um leiðir til að leiðrétta (Forseti hringir.) óréttlætið sem skapast hefur af völdum verðtryggingarinnar. Slík samráðsnefnd er forsenda þess að hér náist þjóðarsátt um endurreisnina.