137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins vegna starfa þingsins. Ég hef starfað hér bráðum í mánuð og starfsumhverfið og skipulag á störfum þingsins kemur mér verulega á óvart.

Ég setti niður smápunktalista. Ég set þar skipulagsleysi, nefndafundir, fundarboð, þingmál á sumarþingi, vinnutími á nefndafundum, vinnuhópar um persónukjör, þjóðaratkvæði og stjórnlagaþing. Eins og þetta horfir við mér, manni sem hefur unnið í áratugi á öðrum vinnustöðum, er þetta einn hrærigrautur, skipulagið og verklagið á þinginu. Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til formanna þingflokkanna hvort eða hvernig sé hægt að koma betra skikki á þetta.

Það var gefin út dagskrá um nefndafundi í upphafi þingsins. Það er ekki farið eftir henni. Nefndafundir eru boðaðir hver ofan í annan. Í hádeginu í gær átti ég að vera á þremur fundum samtímis. Ég komst á tvo fundi, ég náði svona einum þriðja á hvorum fundi og þriðja fundinum missti ég af. Hluti af þessu er að vera í fámennum flokki en ég heyri það á mjög mörgum þingmönnum að þeir eru að fara á límingunum út af skipulagsleysi í vinnubrögðum hér. Ég get alveg fullyrt að nánast á hvaða öðrum vinnustað þar sem skipulag og verklag væri með þeim hætti sem er á Alþingi yrði stjórnunin tekin rækilega í gegn og það yrði gert alveg um leið.

Mig langar að vekja athygli á þessu og mig langar að hvetja formenn þingflokkanna og alla sem telja að sér komi þetta við að skoða þessi mál rækilega og reyna að hittast og koma skikki á vinnulagið.