137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Nú eru liðnir 40 dagar frá kosningum og sú ríkisstjórn sem hér ríkir er orðin 120 daga gömul. Enn liggur ekki fyrir áætlun hjá þessari ríkisstjórn í ríkisfjármálum og ekki er enn búið að endurskipuleggja bankana þannig að þeir geti starfað eðlilega. Þess vegna lækka stýrivextir Seðlabanka Íslands ekki eins mikið og raun ber vitni og lækkuðu aðeins um 1% við síðustu vaxtaákvörðun.

Ég hlýt að spyrja: Hvaða fyrirtæki í landinu og hvaða heimili standa undir þessum himinháu stýrivöxtum? Hér kom reyndar fram í gær í ansi merkilegri umræðu að hæstv. forsætisráðherra telur að vandi heimilanna sé mjög ýktur þegar stjórnarandstaðan bregður upp mynd af skuldugum heimilum og fyrirtækjum í landinu. Það er ósköp eðlilegt að álykta að þessi ríkisstjórn geri sér þá einfaldlega ekki grein fyrir því að það þurfi að spýta í lófana, koma fram með efnahagstillögur til að efnahagsstjórn ríkisins sé með trúverðugum hætti þannig að hægt sé að lækka stýrivexti.

Staðreyndin er sú að við búum við verklausa ríkisstjórn, ríkisstjórn sem hefur látið það viðgangast að bíða eftir að hlutirnir gerðust af sjálfum sér, bíða eftir að eitthvað dytti hreinlega af himnum ofan sem bjargaði okkur úr þeim erfiðleikum sem blasa við okkur hér. Það er því eðlilegt að spyrja stjórnarliða hvenær þeir ætli sér að koma fram með trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum þannig að eitthvert traust skapist á stjórn efnahagsmála á ný hér á landi. Aðgerðaleysið eitt hefur ráðið för hjá þessari ríkisstjórn og fyrir það blæða heimilin og fyrirtækin á Íslandi í dag.

Það er með öllu óviðunandi á þessu sumarþingi eftir að þessi ríkisstjórn hefur starfað í allan þennan tíma að við skulum ekki enn horfa upp á neinar raunhæfar tillögur í (Forseti hringir.) efnahagsmálum aðrar en að hækka bensín landsmanna og aðrar vörur sem hafa (Forseti hringir.) leitt til þess að lánin hafa hækkað um 7–8 þús. millj. kr. hjá heimilunum í landinu.